140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í dag hafa verið fluttar margar ágætisræður hér um þetta mál þótt maður sakni þess eðlilega að fleiri stjórnarliðar, sér í lagi úr öðrum ríkisstjórnarflokknum, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, taki þátt í umræðunni.

Við ræðum, eins og komið hefur verið inn á, frumvarp sem er lagt fram í þeim tilgangi að veita hér skattfrelsi ESB-verktökum, einstaklingum og fleirum sem starfa fyrir Evrópusambandið. Í frumvarpinu er skilgreint hvað ESB-verktaki er. Það getur verið „einstaklingur eða lögaðili sem veitir þjónustu og/eða afhendir vörur og/eða vinnur verk með fjárstyrk samkvæmt ESB-samningi“. Það getur verið gríðarlega víðtækt hverjir falla þarna undir. Það eru engar smáundanþágur sem verið er að veita þessum einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum, hvort sem eru innlendir eða erlendir. Þeim eru veittar miklar skattaívilnanir. Þetta er tíundað í þessu frumvarpi og mig langar, með leyfi forseta, að vitna til nokkurra þátta:

„Við innflutning ESB-verktaka á vörum sem fjármagnaðar eru af ESB-samningi skal fella niður aðflutningsgjöld.“

„ESB-verktaki sem selur vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skal vera undanþeginn virðisaukaskatti.“

„Einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, eru ESB-verktakar […] skulu undanþegnir skattskyldu […] um tekjuskatt, og greiða því hvorki tekjuskatt né útsvar af tekjum sem samningurinn skapar.“

„ESB-verktaki sem selur vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skal vera undanþeginn virðisaukaskatti.“

„Persónulegar eigur og heimilismunir sem einstaklingar, sem taka að sér verkefni sem skilgreind eru í ESB-samningum, […] flytja inn til einkanota skulu undanþegnir tollum, virðisaukaskatti og öðrum aðflutningsgjöldum.“

„Allir samningar sem fjármagnaðir eru af ESB-samningi skulu vera undanþegnir stimplun og stimpilgjaldi.“

Frú forseti. Þegar maður les þetta frumvarp skilur maður vel af hverju ríkisstjórnin var ekki tilbúin að leggja það fram fyrir áramót. Það er ekki við hæstv. núverandi fjármálaráðherra að sakast í því efni, það var annar fjármálaráðherra sem bar þetta mál inn í þingið, mælti fyrir því í ríkisstjórn og þingflokkum. Ástæðan hlýtur að hafa verið sú að fyrir áramótin hefði líklega allt orðið vitlaust. Við horfðum upp á fjárlagafrumvarp sem fól í sér gríðarlegar skattahækkanir almennings og fyrirtækja, í einstaka tilfellum var jafnvel um að ræða tvísköttun á fyrirtæki sem reyndar var að hluta dregið til baka, ekki þó að öllu leyti. Skattbyrðin á einstaklingum er að verða slík hjá fjölskyldum í landinu að fólk er komið alveg út á ystu nöf, vil ég segja, og hækkanir á bensíni, olíu og aðrar skattahækkanir sömuleiðis.

Ef þetta frumvarp sem felur í sér miklar skattaívilnanir hefði komið á dagskrá fyrir áramót hefði það verið sprengja inn í fjárlagagerðina. Það hefði enginn getað réttlætt það á sama tíma og verið er að réttlæta skattahækkanir á almenning, a.m.k. enginn sem kennir sig við norræna velferð.

Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sem talaði áðan um mikilvægi þess að skoðaðar verði í vinnslu nefndarinnar þær fjárhæðir sem um ræðir. Hversu háar fjárhæðir ætlum við að veita hér í skattaívilnanir til handa Evrópusambandinu á næsta ári? Það er mikilvægt við vinnslu málsins í utanríkismálanefnd að þær upplýsingar liggi fyrir.

Annað snúið hefur komið fram í umræðunum í dag. Mörg þeirra verkefna sem ætlunin er að veita fjármagn í eru ætluð til þess að aðlaga og breyta íslensku samfélagi þannig að það sé tilbúið undir Evrópusambandsaðild ef slíkt verður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er dálítið sérstakt þegar menn halda því síðan fram á torgum að hér séu einungis einfaldar samningaviðræður á ferðinni. Við sjáum svart á hvítu í frumvörpum að fjármagn sem Evrópusambandið ætlar að setja hér inn er hugsað til þess að aðlaga íslenskt samfélag. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd, staðfesti í dag að þessir styrkir væru auðvitað ætlaðir til aðlögunar — í aðlögunarferli. Hann sagði að það væri það sem við værum í, við hefðum sótt um aðild að Evrópusambandinu og markmiðið væri að breyta regluverki okkar í samstarfi við Evrópusambandið á þessum samningstíma. Það gengur þvert gegn öllu sem lagt var upp með á sínum tíma enda lá ljóst fyrir, og liggur ljóst fyrir, að það er ekki þingmeirihluti á Alþingi Íslendinga fyrir Evrópusambandsaðild sem slíkri. Menn kynntu þetta þannig að nú væri verið að kíkja í pakka og að hér yrðu engar breytingar gerðar, engin aðlögun gerð, að við yrðum að fá fram samningsniðurstöðu. Svo kemur alltaf betur og betur í ljós að svo var ekki.

Það er sérstakt að skoða á hvaða vegferð við erum í þessu máli öllu saman í ljósi þess sem er að gerast á Íslandi. Andstaðan við Evrópusambandsaðild fer vaxandi. Hvað er að gerast úti í Evrópu? Skoðum erfiðleikana, hvaða kröfur er til að mynda verið að gera í Grikklandi og á Ítalíu? Hvað er að gerast á Spáni? Hvaða fréttir fáum við af efnahagslægðinni sem virðist því miður, frú forseti, dýpka stöðugt? Það er ótrúlega dapurleg framtíðarsýn þegar menn tala fyrir því að þetta sé eina von okkar Íslendinga til að ná okkur á skrið á nýjan leik þegar við eigum svo mörg tækifæri og svo marga möguleika.

Í rauninni lýsir það því hve dapurleg framtíðarsýnin er þegar við horfum upp á það að strax að loknu jólafríi skuli þetta mál vera það mál sem ríkisstjórnin leggur hvað mesta áherslu á að ná hér í gegn. Hún leggur áherslu á að ræða skattfríðindi til handa Evrópusambandinu í þinginu þessa fyrstu daga og vikur ársins.

Á sama tíma horfum við upp á nágrannaríki okkar sem seint flokkast til ríkja sem aðhyllast einangrunarstefnu, til að mynda Noreg, kynna skýrslu sem var gerð vegna gríðarlegrar andstöðu við Evrópusambandsaðild þar í landi. Það var ákveðið að gera úttekt á því hvaða fullveldisafsal hefði átt sér stað og hvaða áhrif EES-samningurinn hefði haft þar í landi. Þar kemur fram að sá samningur hafi vissulega, svo því sé haldið til haga, haft sumt jákvætt í för með sér en engu að síður væri mikið áhyggjuefni hversu mikið fullveldisafsal hefði verið í þeim samningi. Nú liggur ljóst fyrir að Norðmenn eru ekki á leiðinni í Evrópusambandið, um 80% þjóðarinnar eru andsnúin ESB-aðild. Þriðjungur Norðmanna er fylgjandi því að EES-samningnum verði sagt upp. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann tala um að Norðmenn séu einhverjir einangrunarhyggjumenn þegar kemur að alþjóðapólitík, þvert á móti, eða Svisslendingar.

Á tímum sem þessum þegar öll teikn eru á lofti um að við séum að fara í djúpa lægð í Evrópu og önnur ríki eru að skoða hvernig sé hægt að draga úr fullveldisafsali sem fylgi EES-samningnum ræðum við Íslendingar í fullri alvöru og með stuðningi einungis eins stjórnmálaflokks á Alþingi hvernig við getum gengið í Evrópusambandið og hvernig við getum veitt skattfríðindi þeim aðilum hér á landi og erlendis sem ætla að vinna að þessu.

Frú forseti. Ég sagði hér í dag að það væri með ólíkindum, og hældi hæstv. utanríkisráðherra þar með, hversu langt þetta mál væri komið í ljósi þess hversu lítill pólitískur vilji er á bak við og stuðningur við Evrópusambandsumsóknina. Það er ótrúlegt í ljósi þess hversu lítill stuðningur er meðal þjóðarinnar við Evrópusambandsaðild hversu langt þetta mál er komið og enn ótrúlegra í ljósi alls niðurskurðarins að við stöndum nú hér og ræðum mál sem þetta.

Það var rakið ágætlega í ræðu hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni hér fyrr í dag — ég hygg að hann sé einn fárra þingmanna VG sem hefur tekið þátt í þessari umræðu — í hvaða tilgangi þessi IPA-stuðningur er. Það hefur komið fram hversu miklum þrýstingi hann var beittur til að taka við slíkum aðlögunarstyrkjum í sínu ráðuneyti og honum var síðan hent af ráðherrastóli vegna þess að hann teymdist ekki nógu vel í þessu máli. Hann rakti ágætlega í ræðu sinni stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum málum, samstarfsflokks Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Það er með ólíkindum að við skulum vera að ræða það að veita Evrópusambandinu eða þeim sem starfa fyrir það gríðarleg skattfríðindi. Maður hefði óskað þess að á nýju ári hefði ríkisstjórnin til að mynda verið með tillögur til handa heimilunum í landinu, um verðtrygginguna. Á gríðarlega stórum fundi í Háskólabíói í gær var rætt um afnám verðtryggingarinnar. Þetta er það sem öllu máli skiptir, frú forseti, og það er mikið áhyggjuefni.

Ég hvet utanríkismálanefnd til þess að fara vel ofan í saumana á þessu máli, láta gera á því fjárhagsúttektir hvaða upphæðir við værum að veita í skattafslætti. Það er mjög mikilvægt fyrir afgreiðslu þessa máls að allar slíkar upplýsingar liggi fyrir áður en málið kemur hér til 2. umr.