Umhverfisábyrgð

Fimmtudaginn 26. janúar 2012, kl. 13:58:38 (4618)


140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

umhverfisábyrgð.

372. mál
[13:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt og merkilegt frumvarp til umhverfisábyrgðar. Það eru mér vonbrigði hvað þátttaka í þingsal er lítil og að enginn sé kominn á mælendaskrá enn þá. Það getur varla verið að þingmenn hafi ekki áhuga á þessu.

Mér finnst umhverfisráðuneytið og sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra alltaf vera dálítið föst í nærumhverfi sínu. Ég vil spyrja hana hvaða áhrif þetta hafi á fjærumhverfið. Þetta mun væntanlega kosta eitthvað fyrir Evrópusambandið sem þýðir að samkeppnisstaða fyrirtækja í Evrópusambandinu verður lakari sem þýðir að eftirspurn vex eftir vörum í Kína og Indlandi og víðar þar sem ekki er farið vel með umhverfið, því miður. Svona reglur eru langt í frá komnar í gildi þar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Getur verið að svona frumvarp, eins gott og það er fyrir nærumhverfið, geti valdið skaða á fjærumhverfinu, þ.e. umheiminum öllum, þetta er jú einn hnöttur, og skaðað okkur óbeint? Til dæmis virðir brennisteinsmengun og koldíoxíðútblástur ekki landamæri, og hitnun jarðar ekki heldur sem kunnugt er. Ég spyr hvort þetta muni ekki styrkja samkeppnisstöðu þeirra landa sem Evrópusambandið er í samkeppni við, minnka framleiðslu og mengun í Evrópu en auka hana miklu meira annars staðar þar sem engar varnir eru. Þetta eru sem sagt hugleiðingar spurningar sem ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra gefi mér svar við, því að mér finnst umræðan vera allt of mikið bundin við það hvað gerist á Íslandi, eins og ekkert sé til fyrir utan Ísland eða fyrir utan Evrópusambandið.