Umhverfisábyrgð

Fimmtudaginn 26. janúar 2012, kl. 14:00:39 (4619)


140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

umhverfisábyrgð.

372. mál
[14:00]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég leyfi mér þó að gera athugasemd við þær forsendur sem hann leggur til grundvallar, þ.e. að helsti vandinn sé sá að umhverfisráðuneytið eða ráðherra umhverfismála sé fastur í nærumhverfi sínu, því að þetta snýst um ábyrgð á nærumhverfi okkar og þá hugmyndafræði að við séum til fyrirmyndar, að Evrópa sé til fyrirmyndar. Ég veit að þingmanninum er markaðurinn og markaðshagkerfið kært og þetta er auðvitað líka spurning um það, vegna þess að svo kann að vera að nákvæmlega þessir hlutir skipti miklu máli og í vaxandi mæli fyrir markaðsstöðu, þ.e. að græn sjónarmið séu til fyrirmyndar í hvívetna hvað varðar uppruna vöru, tilurð hennar, markaðssetningu o.s.frv.

Ég held og er raunar þess fullviss að ekki sé rétt leið að bíða þeirra sem skemmst eru komnir í heiminum með að stíga skref í átt til náttúruverndar og meiri umhverfisábyrgðar, vegna þess að ef við bíðum þess höfum við einfaldlega ekki tíma til að grípa inn í. Þróunin er nú þegar mjög alvarleg.

Ég vil þessu til viðbótar benda hv. þingmanninum á alþjóðlegar skuldbindingar sem eru líka fyrir hendi, að því er varðar loftslagsmál, líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra þróun sem þessi ríki eru aðilar að sem hv. þingmaður nefnir í andsvari sínu, og varða líka grundvallarsjónarmið í umhverfismálum.