Umhverfisábyrgð

Fimmtudaginn 26. janúar 2012, kl. 14:04:25 (4621)


140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

umhverfisábyrgð.

372. mál
[14:04]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur tilhneigingu til að bera upp þessa fyrirspurn og þetta andsvar undir eiginlega öllu því sem rætt er í þingsal um umhverfismál. Við höfum áður átt þessi orðaskipti sem hér eru í gangi. Mig langar að segja að sem betur fer aðhyllast sífellt fleiri þjóðríki og fyrirtæki og sífellt fleiri stjórnmálamenn markmið sjálfbærni. Eitt af því sem þar er undir er nákvæmlega það að taka ákvarðanir sem varða langtímahagsmuni.

Þess vegna vil ég enn og aftur setja spurningarmerki við útgangspunkt hv. þingmanns sem talar um samkeppnisstöðu til skamms tíma, vegna þess að það er ábyrgð okkar að taka ákvarðanir sem varða langan tíma og auka meðvitaðri umræðu og upplýsingu og eftirspurn eftir grænni vöruþróun og grænum hagvexti. Það er mikilvægt að sífellt fjölgar í þeim hópi sem aðhyllist þessi sjónarmið eins og ég kom að áðan. Ég vona að upp renni sá dagur að hv. þm. Pétur Blöndal fylli þann hóp.