Landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 15:38:39 (4962)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[15:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tek fram, eins og ég gerði hér áðan, að ég geri engar athugasemdir við það að við hér í þinginu förum yfir þetta svið mannlífsins eða viðskiptalífsins og veltum því fyrir okkur hvaða reglur þörf er á að setja. Ég vildi hins vegar, við upphaf þessarar umræðu, lýsa ákveðnum efasemdum og fyrirvörum varðandi það mál sem liggur fyrir og áskilja mér rétt hér í þinginu og í umhverfis- og samgöngunefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, til að fara vel yfir það, kalla eftir upplýsingum og gera eftir atvikum breytingartillögur eða annað eftir því sem þurfa þykir.

Þetta slær mig þannig, svo að ég orði það skýrt, að hér sé ekki um að ræða neitt vandræðaástand sem verið er að bregðast við, heldur þjónustu sem hefur gengið tiltölulega vel fyrir sig og starfsemi sem hefur verið í tiltölulega góðu horfi. Þess vegna vil ég fara varlega í breytingar á því. Hvort starfsemin er rekin af einkaaðilum eða opinberum aðilum, þar er um að ræða ákveðinn áherslumun á mér og hæstv. ráðherra, hann hefur tilhneigingu til að velja opinbera reksturinn ef hann er í vafa en ég kannski frekar einkareksturinn.

Ég segi bara fyrir sjálfan mig að ég tek þessu frumvarpi með töluverðum fyrirvara og efasemdum þó ég segi enn og aftur að löggjafinn (Forseti hringir.) þurfi að fara yfir þetta svið og velta fyrir sér hvaða almennu leikreglur eigi að setja á starfsemi af þessu tagi.