Landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 15:43:02 (4964)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[15:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þó að það sé pólitískur áherslumunur hjá mér og hæstv. innanríkisráðherra þá held ég að við höfum sama markmið; að reyna að tryggja hagsmuni notenda og skattgreiðenda, ég held að við getum verið sammála um það.

Ég ætla að byrja ræðu mína á því sem hæstv. ráðherra kom inn á varðandi gjaldskrána og hann leiðrétti reyndar ummæli sín um hana frá því í umræðunni í fyrra. Ég tel mjög gott og mikilvægt að menn geri það sem hann gerði, hann ítrekaði núna að hann hefði ekki farið rétt með í fyrra og hann hefði ekki haft réttar upplýsingar þegar hann sagði að fyrirtækið hefði hækkað gjaldskrána. Það er mjög virðingarvert að leiðrétta það og á auðvitað að vera þannig.

Hæstv. ráðherra sagði að fyrirtækið hefði lækkað gjaldskrá síðan frá því að við ræddum þetta mál síðast. Mig langar að velta því upp í þessari umræðu, af því að menn eru að takast á um hvort þessi starfsemi eigi að vera í einkarekstri eða opinberum rekstri, hvort einhver geti bent mér á þó ekki væri nema eina ríkisstofnun sem hefur lækkað gjöld á undanförnum árum. Ég bið bara um eina, þarf ekki meira, bara eina ríkisstofnun sem hefur lækkað gjöld. Það getur vel verið að það hafi gerst og farið fram hjá mér en ég spyr hvort það sé hugsanlegt að einhver ríkisstofnun hafi lækkað gjöld á undanförnum árum, því að ég hef séð mjög margar ríkisstofnanir fá heimild til að hækka gjöld og bæta við reksturinn, sér í lagi svokallaðar eftirlitsstofnanir, þar hafa hækkanir oft á tíðum verið upp á hundruð milljóna. Á sama tíma og skorið er niður í velferðarmálum er hægt að gefa eftirlitsstofnunum lausan tauminn og þær henda skattinum í notendurna, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki. Ég kalla eftir því, hefur einhver ein ríkisstofnun lækkað gjöld á undanförnum missirum?

Þetta mál var í meðförum þingsins á síðasta þingi og var ekki klárað í vor. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég set mjög marga fyrirvara við þetta mál og er mjög hugsi yfir mörgu sem hér er á ferðinni. Það kom fram í umræðunni þá og líka í umræðu um fjarskiptalögin að hæstv. ráðherra sagði að það hefði verið skoðað alveg sérstaklega hvort taka ætti fyrirtækið í raun og veru eignarnámi eða þjóðnýta það. Það er ákveðinn möguleiki í stöðunni að gera það en ég tel að að baki slíkri ákvörðun þyrftu að liggja mjög sterk rök.

Nú vitum við hins vegar, og það kemur fram í frumvarpinu reyndar líka og kom fram í meðförum nefndarinnar þegar við fjölluðum um þetta mál á síðasta þingi, að fyrirtækið sem um ræðir er rekið með miklum myndarbrag og hefur sinnt skyldum sínum einstaklega vel. Það færi betur ef mörg önnur fyrirtæki, bæði í einkageiranum og á vegum hins opinbera, hefðu staðið sig jafn vel og þeir sem reka þetta fyrirtæki.

Ég verð því að segja fyrir mína parta, virðulegi forseti, að mér finnst ekki hægt að hér sé aðeins kveðið á um fimm ára starfsleyfi og að það sé ekkert pósitíft ákvæði um framlengingu á því, þrátt fyrir að fyrirtækið geti klárlega sýnt fram á að það hafi staðið sig einstaklega vel, og það hefur verið staðfest af hæstv. ráðherra, ráðuneytinu og eftirlitsstofnununum. Mér finnst þessi fimm ára tími alveg fáránlegur, algerlega galinn og mér finnst hann vera skrifaður hér inn af fólki sem ekki þekkir neitt til reksturs, ekki neitt. Hvernig í ósköpunum á þetta að vera hægt? Það má eiginlega snúa þessu við. Ef maður ætlar að byggja upp starfsemi eins og þessa með öllum þeim kostnaði og mannafla sem fylgir, byggja upp mannauð sem er sennilega eitt það verðmætasta í þessu fyrirtæki þá er ekki hægt að setja skilyrði um fimm ára leyfi. Þetta er algerlega ofar mínum skilningi. Í fyrsta lagi ætti tíminn auðvitað að vera lengri og í öðru lagi ætti að setja inn pósitíft ákvæði. Það væri nær að fara þá leið að setja almenn lög. Í þessu tilfelli er talað um að lögin eigi að tryggja hag neytenda, skattborgara og notenda og þá er eðlilegra að í þeim sé ákvæði um að ef fyrirtækið brýtur þær reglur sem því eru settar, falli starfsleyfið auðvitað úr gildi. Mín skoðun er sú að ef þetta verður samþykkt svona, að fyrirtæki sem starfað hefur í 25 ár fái einungis fimm ára starfsleyfi með enga vissu um framhaldið, sé það í raun og veru bara önnur leið að þjóðnýtingu og eignarnámi.

Þá velti ég því fyrir mér og ég bið hæstv. ráðherra að svara því: Hefur verið skoðað af hálfu ráðuneytisins hvort þarna sé verið að ganga á atvinnurétt fyrirtækisins og þeirra einstaklinga sem þar starfa og hvort þetta gæti hugsanlega skapað ríkinu skaðabótaskyldu? Ég veit ekki hvort svo er en það kom fram í meðförum nefndarinnar að þetta gæti hugsanlega gerst.

Ég verð að segja líka að ég er eiginlega mjög dapur yfir því að inn í lagatextann hafi verið skrifaðar þær skýringar að það hafi þurft að fara í þessar breytingar vegna þess að óformlegar kvartanir hafi borist. Hvers konar endemis vitleysa er þetta eiginlega? Hvaða aðför er þetta að starfsmönnum og rekstrar- og framkvæmdastjóra fyrirtækisins að setja svona kjaftakerlingatexta í frumvarpið? Það er fyrir neðan virðingu hæstv. innanríkisráðherra að mæla fyrir frumvarpi með slíkum texta. Ég gerði alvarlegar athugasemdir við þetta þegar við ræddum þetta í fyrra, þá átti ég sæti í hv. samgöngunefnd, og ég er mjög dapur yfir því að þessu skuli ekki hafa verið breytt og það standi enn í frumvarpinu að ein af forsendum breytinganna sé sú að borist hafi óformlegar kvartanir, þegar fyrirtækið hefur staðið sig einstaklega vel og rekur eitt öruggasta höfuðlén í heimi. Þetta er ekki boðlegt og ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að taka þetta til sérstakrar skoðunar þegar fjallað verður um málið í þeirri ágætu nefnd. Ég er viss um að þeir sem eiga sæti í þeirri nefnd í dag munu að sjálfsögðu vanda mjög til verka eins og gert var í fyrrverandi hv. samgöngunefnd.

Ég spurði hæstv. ráðherra áðan í andsvörum, og hann getur komið nánar inn á það í andsvörum við mig eða í lokaræðu sinni, hvort lénaskatturinn, sem ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við, sem er 4,9% af veltu fyrirtækisins, færi í eftirlitið. Sé raunin sú, eins og hæstv. ráðherra svaraði, að gjaldið sé miðað við áætlaðan kostnað við eftirlitið, þá sé ég engin rök fyrir því af hverju Póst- og fjarskiptastofnun er ekki gert að rukka fyrirtækið fyrir eðlilega þjónustu sem fylgir eftirlitinu, þ.e. að hún skrifi reikninga fyrir þeirri vinnu sem hún innir af hendi. Því miður er allt of algengt að menn setji svona skattstofna til eftirlitsstofnananna og svo þenst þetta út í hið óendanlega. Þetta er algerlega óþolandi því að ef svona skattstofn er settur á og hann er of hár þá fer þetta í hring og gjöldin hækka. Við hæstv. ráðherra erum sammála um að auðvitað þurfi að tryggja hag neytendanna en á endanum munu allar skattahækkanir leiða til þess að gjöldin hækka, á einn eða annan hátt. Það gefur augaleið. Það er alveg sama hvaða skattar eru hækkaðir. Ef maður hækkar skattinn hjá fjármálastofnunum vegna Fjármálaeftirlitsins, þá fer hækkunin yfir á þá sem fá þjónustu í bönkunum. Ef maður setur skatt á flugfélögin hækka flugmiðarnir og svona koll af kolli. Þess vegna skil ég ekki af hverju þetta er gert svona. Ég man eftir því að í umræðum um málið gerðu forsvarsmenn fyrirtækisins engar athugasemdir við það að borga fyrir þá þjónustu sem eftirlitsstofnunin innir af hendi en að það skuli vera ákveðið að gjaldið skuli vera 4,9% af veltu og grunnurinn að því sé sú þjónusta sem stofnunin á að veita þessu fyrirtæki — ég bara skil það ekki.

Síðan segir hæstv. ráðherra að tryggja þurfi þennan rekstur og nefndi einkavæðinguna árið 2000. Það getur vel verið að það hafi verið mistök að einkavæða þetta fyrirtæki árið 2000. En það voru ekki þeir einstaklingar eða forsvarsmenn fyrirtækisins sem starfa í dag sem bera ábyrgð á því. Það voru stjórnmálamenn á þeim tíma sem tóku þá ákvörðun þannig að mér finnst að sú einkavæðing eigi ekki að vera rök í málinu núna fyrir því að setja þessa starfsemi í fimm ára ferli. Það sjá allir heilvita menn að ef fyrirtækið á að hafa starfsleyfi til fimm ára er það algerlega óboðlegt. Við ættum kannski líka að spyrja okkur hinnar spurningarinnar: Ef gefið er út starfsleyfi til fimm ára er þá ekki verið að veita þessu eina fyrirtæki einokun á markaðnum? Það mun enginn annar geta farið í þann kostnað sem fylgir því að stofnsetja svona fyrirtæki og sækja um starfsleyfi hjá ráðuneytinu. Þetta undirstrikar enn og aftur þá skoðun mína að í raun og veru sé verið að fara einhverja aðra leið að því að þjóðnýta fyrirtækið.

Það er mjög margt sem ég vil fara yfir í þessu frumvarpi. Ég þykist muna það rétt að forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu: Það er eðlilegt að setja lög um starfsemi fyrirtækisins, mjög eðlilegt. En að setja þau fram eins og hér er gert tel ég mjög óeðlilegt. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra og fá fram viðhorf hans: Var litið til nágrannalandanna, t.d. Svíþjóðar, og hvernig lögin um lénin eru þar? Ætti ekki frekar að fara þá leið heldur en að ganga eins langt og hér er gengið? Ég hefði talið það eðlilegra en að taka þetta stóra skref í fyrstu atrennu. Að mínu mati er verið að setja fyrirtækið og rekstur þess í uppnám.

Þá getum við líka komið að öðru atriði sem má skoða, hvort það verði ekki þannig þegar svona stuttur tími er gefinn og það fer að síga á seinni hluta hans og menn eru kannski ekki vissir um að fá endurnýjun á starfsleyfinu, að þá fari að ráða einhver skammtímasjónarmið. Það er töluverð hætta á því. Menn verða að skoða hlutina frá öllum hliðum.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að fjalla meira um þetta mál í bili. Það fer nú til hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem ég á því miður ekki sæti í en ég mun að sjálfsögðu fylgjast með þessu máli og vænti þess að þeir sem í nefndinni sitja muni fara mjög vandlega yfir það. Það sem ég geri fyrst og fremst alvarlegar athugasemdir við er fimm ára starfsleyfi með engum pósitífum ákvæðum um hvort það fáist framlengt. Ég tel það algerlega galið og vil fá fram hvort ráðuneytið hafi skoðað hvort að með skyndilegu inngripi með fyrstu lagasetningunni um fimm ára starfsleyfi fyrirtækis sem hefur starfað í 25 ár, sé gengið á atvinnurétt þess og það geti hugsanlega bakað ríkissjóði skaðabótaskyldu, og hvort þetta sé einhver dulbúin leið til að þjóðnýta fyrirtækið. Ég spyr vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að það eina sem vantaði, þegar menn vildu skoða þjóðnýtinguna betur eða yfirtökuna á fyrirtækinu — en þegar menn fara í eignarnám er það kannski ekkert annað en þjóðnýting — væri fjármagn. Ríkissjóður var auðvitað tómur og því hefði þetta ekki verið raunhæfur möguleiki en að öðru leyti, út frá öllum öðrum forsendum, hefði það verið raunhæft. Þar greinir okkur hæstv. innanríkisráðherra auðvitað mjög á um hvort hægt sé að fara inn í starfsemi fyrirtækis í einkarekstri og þjóðnýta það þegar ekkert kallar á það. Það er ekki hægt að mínu viti og það er í raun staðfest með þeirri fullyrðingu sem kemur fram í frumvarpinu um að fyrirtækið reki eitt öruggasta lén í heimi.

Við þekkjum það og fengum að vita það í umfjöllun nefndarinnar að í þeim löndum þar sem hafði mistekist að halda utan um landslénin hafði það alvarlegar afleiðingar. Þess vegna hefði ég talið eðlilegra að menn settu almennari lög, eða lög um fyrirtækið og hvernig það ætti að starfa. Ef menn vilja setja tímabundið starfsleyfi þá á tíminn að sjálfsögðu að vera miklu lengri með ákveðnum kvöðum um að fyrirtækið þurfi að standa við ákveðnar skuldbindingar, annars falli leyfið úr gildi sem er bara eðlilegt í rekstrarumhverfi fyrirtækja. En að gera þetta með því að setja lénaskatt sem er 4,9% af veltu fyrirtækisins er að mínu viti algerlega galið. Það segir sig sjálft að þegar 4,9% af brúttóveltunni fara í ákveðinn skatt til eftirlitsstofnunar eru menn komnir á villigötur því að þetta er gríðarlega há tala. Það væri reyndar fróðlegt að bera hana saman við aðrar rekstrartölur fyrirtækisins og hvað þetta þýðir í raun fyrir það. Ég gerði alvarlegar athugasemdir við þetta í upphafi en fagna því sem hæstv. ráðherra sagði að hv. samgöngunefnd muni auðvitað fara yfir þetta og leggja til breytingar sem hún telur réttar.