Landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 16:24:13 (4973)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er skattlagning á önnur fjarskiptafyrirtæki 0,33% af rekstrargjöldum, en að því er að hyggja að þetta eru miklu stærri fyrirtæki, víðtækara starfssvið og stærri verkefni sem unnið er að og fjármögnuð.

Þegar við ræðum um þetta tiltekna fyrirtæki sem hefur eignarhald á landsléni okkar skulum við ekki gleyma því að það er mjög varasamt að festast í umræðu um núverandi eigendur. Við verðum að hafa í huga að fyrirtæki ganga kaupum og sölum. Staðreyndin er sú að það kristallast meðal annars í sögu þessa ágæta fyrirtækis að þar hafa misjafnir aðilar komið að málum, og ekki bara misjafnir aðilar heldur hafa þeir líka verið þátttakendur í mismunandi tíðaranda. Það er það sem við erum að reyna að reisa skorður við, að eitthvað fari úrskeiðis þegar ábyrgðin er ekki sem skyldi eða eitthvað er í tíðarandanum sem glepur mönnum sýn, og búa til traust lagaumhverfi. Það mun Alþingi gera í framhaldi af því að þetta frumvarp, sem ég tel vera mjög vandað og vel hugsað, er lagt fram.

Spurt var: Hefur ríkið íhugað skaðabótaskyldu? Já. Farið var rækilega yfir það og talið var að sú leið sem við förum núna til að tryggja almannahag sé sú réttlátasta og þar af leiðandi ekki þess valdandi að ríkið verði skaðabótaskylt.