Landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 16:30:31 (4976)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mátti til með að koma upp í andsvar við ræðu hæstv. ráðherra vegna þess að hann er farinn að ræða um persónu mína aftur og aftur. Ég þakka svo sem fyrir aðdáunina og athyglina en verð nú samt að svara því.

Í fyrsta lagi sagði hæstv. ráðherra, sem var óháð persónu minni, að menn hefðu sýnt umhyggju fyrir fyrirtækinu en ekki neytendum. Ég tók það alveg sérstaklega fram að ég væri að skoða hag neytenda og að ég teldi þetta vera einokun, þetta væri dýrt, þannig að það er ekki rétt að engin umræða hafi orðið um neytendur. Ég tók mig sjálfan sem dæmi og ég hef verið þarna sem neytandi, ég hef meira að segja hætt af því að það var svo dýrt.

Síðan sagði hæstv. ráðherra að við einkavæðingu Landssímans hafi hann skilað 2–3 milljörðum á ári í hagnað. Síminn var seldur á 60 milljarða. Bara vextirnir af þeirri upphæð eru töluvert mikið meira en hagnaðurinn sem hann skilaði áður og greiddar voru niður erlendar skuldir upp á 30 milljarða fyrir andvirðið. Ég hugsa að þau lán sem greidd voru niður hafi sparað ríkissjóði meiri vexti en sá hagnaður sem Landssíminn skilaði áður. Svo voru 30 milljarðar eftir sem fóru í sjóði og fleira og komu til landsins. Síminn var því seldur á verði sem sparar vexti sem eru töluvert hærri en sá hagnaður sem hann skilaði áður, fyrir utan allar breytingarnar sem urðu á fyrirtækinu. Ég verð bara sem neytandi að benda á það.

Svo sagði hæstv. ráðherra um bankana, það var svo yndislegt, að allir flokkar hefðu verið þar inni, svona meira og minna, með bankastjóra, bankaráð, þingmenn og ráðherra, en nú væri þarna einn flokkur. Það vill svo til að núna er það Samfylkingin og áður voru það Vinstri grænir.