Landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 16:32:29 (4977)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Persóna hv. þingmanns átti nú ekki að vera til umfjöllunar, þannig var það ekki meint af minni hálfu. Ég var fyrst og fremst að gagnrýna staðhæfingar hv. þingmanns um ágæti einkavæðingar á bönkunum annars vegar og Landssímanum hins vegar. Við skulum ekki gleyma því að þótt fengist hafi umtalsvert fjármagn fyrir sölu Símans og þótt ég vísi hér til arðsins af Símanum á ári hverju, fóru þar aðrir þættir, samfélagslegir þættir, forgörðum, vegna þess að Póstur og sími var rekinn í ágætu sambýli, hentaði mjög vel við íslenskar aðstæður. Þegar Síminn var markaðsvæddur losnaði um öll þessi gömlu tengsl þannig að samfélagslega var það hið mesta óráð. En við erum komin út úr þeim tíma. Við erum að reyna að bregðast við með öðrum hætti núna til að tryggja samfélagslega hagsmuni. Eins og við ræddum fyrr í dag varðandi fjarskiptasjóð erum við að reyna að búa til kerfi og regluverk sem færir fjármuni frá þeim sem njóta góðrar þjónustu til annarra sem búa við lakari þjónustu, því að við erum væntanlega öll sammála um að gott aðgengi að fjarskiptum eru grundvallarréttindi í samfélagi okkar.