Norræna hollustumerkið Skráargatið

Föstudaginn 03. febrúar 2012, kl. 12:31:01 (5039)


140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þór Saari) (Hr):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um tillögu til þingsályktunar um norræna hollustumerkið Skráargatið. Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beiti sér fyrir því að unnt verði að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið á matvörur sem framleiddar eru hérlendis.

Fyrsti flutningsmaður að þessu máli er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Það kom upp að enginn flutningsmanna málsins átti sæti í atvinnuveganefnd og ég var fenginn í það að vera talsmaður þessa máls og mér hefur verið sönn ánægja að gera það. Þetta er vonandi einhvers konar fyrirmynd að því hvernig hægt er að vinna mál eftir þessu talsmannakerfi. Málið hefur fengið farsælan feril og farsælan endi því að það er komið frá nefndinni með jákvæðri umsögn.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur P. Erlingsson og Kristin Hugason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Viktor S. Pálsson og Zulemu Sullca Porta frá Matvælastofnun og Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Neytendasamtökunum, Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Alþýðusambandi Íslands, umboðsmanni barna og talsmanni neytenda, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Hjartavernd, landlæknisembættinu og Hjartaheillum, landssamtökum hjartasjúklinga.

Þingsályktunartillaga sama efnis var lögð fram á 139. löggjafarþingi, þskj. 831, 508. mál, og bárust sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þá tíu umsagnir um málið.“

Málinu var vísað til nefndarinnar 19. október 2011. Á fundi hennar 1. nóvember var samþykkt tillaga um að sá er hér talar yrði framsögumaður málsins og samþykkt að óska umsagna um málið. Flestar umsagnir um málið, bæði á 139. og 140. þingi, voru jákvæðar og mæltu margir umsagnaraðila með því að þingmálið yrði samþykkt. Aðeins í umsögn Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins kom fram efnisleg gagnrýni en fjallað verður nánar um hana hér síðar.

Strax við upphaf meðferðar málsins kom fram áhugi meðal nefndarmanna á því að nefndin legði til frekari aðgerðir í átt að upptöku norræna hollustumerkisins Skráargatsins (hér eftir einfaldlega nefnt Skráargatið) en ályktunartexti tillögunnar gaf til kynna. Fór svo að nefndin lét kanna hvaða leiðir væru færar með það fyrir augum að tryggja að í lögum kæmu fram nægilegar heimildir til þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gæti hafið nauðsynlegan undirbúning.

Í stuttu máli var niðurstaða nefndarinnar eftir framangreinda könnun að skynsamlegast væri að leggja til að þingsályktunartillagan yrði samþykkt en leggja samhliða nefndarálitinu fram frumvarp sem innihéldi reglugerðarheimild sem heimilaði ráðherra að setja í reglugerð ákvæði sem heimilaði matvælafyrirtækjum að merkja matvæli áherslumerkingu sem gæfi til kynna að matvælin uppfylltu skilyrði Skráargatsins. Þá væri þar einnig kveðið nánar á um efni reglugerðarinnar og skyldu til samráðs við landlæknisembættið. Var niðurstaðan byggð á skoðun á þeim lagaheimildum og reglugerðum sem liggja til grundvallar skráargatsmerkinu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð; og mun ég væntanlega mæla fyrir því frumvarpi hér strax í kjölfar þessa nefndarálits.

Í greinargerð Matvælastofnunar frá 2012 segir, með leyfi forseta:

„Við meðferð málsins hafði nefndin samstarf við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og Matvælastofnun enda er þar að finna nokkra sérþekkingu á Skráargatinu. Hinn 16. janúar 2012 barst nefndinni greinargerð Matvælastofnunar um Skráargatið, norræna hollustumerkið. Þar kemur fram í inngangi að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi í nóvember 2008 óskað eftir því við Matvælastofnun að hún „kynnti sér Skráargatið sem hollustumerki og greindi frá því hvort Ísland ætti að taka þátt í samstarfi um Skráargatið sem samnorrænt merki“ o.fl.

Að mati nefndarinnar gefur greinargerð Matvælastofnunar góða yfirsýn yfir notagildi og virkni Skráargatsins ásamt því sem af henni má leiða um helstu kosti og galla þess. Þá inniheldur greinargerðin nokkra greiningu á ferli innleiðingar Skráargatsins og áhrifum hennar á neytendur og fyrirtæki í matvælaiðnaði. Að auki koma þar fram hugmyndir um kynningu Skráargatsins og mat á kostnaði við innleiðingu þess.“

Greinargerðin er fylgiskjal með álitinu og ég hvet þingheim til að kynna sér hana því að hún er um margt mjög merk og innihaldsrík að upplýsingum hvað þetta mál varðar.

Ábendingar og athugasemdir Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins voru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Eins og fram hefur komið er einu athugasemdirnar sem koma fram í umsögnum um málið að finna í sameiginlegri umsögn Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins. Skoða verður athugasemdirnar í ljósi þess að þar kemur einnig fram að báðir aðilar séu „fylgjandi því að almenningur fái vandaðar upplýsingar um mataræði og hreyfingu þar sem lögð er áhersla á fjölbreytni, hófsemi og reglusemi. Samfelld og fordómalaus upplýsingagjöf um mataræði [sé] besta leiðin til að upplýsa neytendur.“

Þá telja samtökin „að notkun hollustumerkis geti verið ein leið til að hvetja fólk til að velja hollari vöru innan tiltekins fæðuflokks.“ Að auki segja samtökin að þau hafi orðið vör við vaxandi áhuga íslenskra framleiðenda fyrir notkun merkisins á undanförnum mánuðum. Að lokum benda samtökin á að ef tekin verði ákvörðun um að taka merkið til notkunar hér sé mjög mikilvægt að kynna það vel þannig að neytendur átti sig á að merkið gefi einungis vísbendingu um hollustu hverrar vöru í samanburði við aðrar vörur innan sama vöruflokks en gefi á engan hátt upplýsingar um samsetningu mataræðisins í heild.

Inntak athugasemda samtakanna er að óljóst sé hvort notkun hollustumerkja, eins og Skráargatsins, skili árangri, bæti mataræði og hafi áhrif á líkamsþyngd landsmanna. Þá telja þau ekki hægt að flokka einstakar vörur í góðar og slæmar eingöngu út frá næringarinnihaldi. Er það mat þeirra að skoða verði mataræði í víðara samhengi og lýsa þau sig andvíg því að útiloka suma matvælaflokka frá notkun Skráargatsins. Þá telja þau ekki ljóst að merkið muni auðvelda neytendum að velja hollt mataræði á einfaldan hátt þar sem það verði einungis hægt að nota á einstakar afurðir, án tillits til þess í hvaða samhengi þeirra er neytt og aðeins á suma vöruflokka.

Á fundi nefndarinnar benti fulltrúi samtakanna á að flokkunarkerfi Skráargatsins hefði í för með sér að andsamkeppnisleg aðstaða kynni að skapast. Þannig var sem dæmi bent á að aðeins væri heimilt að nýta merkinguna á forpakkaðar matvörur og af þeim sökum sætu bakarí til dæmis ekki við sama borð og matvöruverslanir þegar kæmi að merkingu matvæla. Þá var einnig bent á að ákveðnir flokkar matvæla væru í raun útilokaðir frá notkun merkisins og að slíkt kynni að hafa letjandi áhrif á framleiðendur matvæla í slíkum flokkum til þess að bæta vörur sínar og gera þær heilnæmari. Þannig kom til dæmis fram að framleiðendur sælgætisstanga sem vildu auka magn trefja og grófra korna væru útilokaðir frá notkun merkisins og hefðu því engan hag af því að leggja í vöruþróun í framangreindu skyni.“

Herra forseti. Nefndin fjallaði svolítið um þessar athugasemdir og þetta mál og fór mjög vel yfir, eins og fram kemur í greinargerð Matvælastofnunar, með hvaða hætti upptöku nýrra vara sem geta notað Skráargatið er háttað. Þar kom meðal annars fram — það sem mér sjálfum fannst mjög merkilegt — að Norðmenn fengu það í gegn að ákveðin tegund af hollum frosnum pítsum gæti fengið merkið. Það kemur nefnilega í ljós að Norðmenn eru miklir neytendur frosinna pítsa og borða 48 milljónir frosinna pítsa á ári, sem er eitthvað sem ég held að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafi ekki vitað þegar hún lagði þetta mál fram — og er þó frá Noregi.

Herra forseti. Nefndin lítur þingmálið jákvæðum augum og styður einhuga framgang þess. Samhliða afgreiðslu álitsins samþykkir nefndin að leggja fram frumvarp til breytingar á matvælalögum í því skyni að auðvelda og hraða framganginum enn frekar. Þó bendir nefndin á að margt er ólíkt í neysluvenjum og vöruframboði í þeim löndum sem tekið hafa upp Skráargatið. Fram hefur komið að skilyrði merkisins sæta endurskoðun eftir því sem tilefni er til. Í ljósi þess munar sem gætir á milli matvælamenningar á Íslandi og í ríkjum Skáargatsins hvetur nefndin sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að hlutast til um að full þátttaka verði í samstarfi um Skráargatið af Íslands hálfu og í því samstarfi fái vægi fram komin sjónarmið Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins.

Að lokum segir:

„Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 31. jan. 2012. Kristján L. Möller, Þór Saari, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram, Ólína Þorvarðardóttir, Björn Valur Gíslason, Einar K. Guðfinnsson, Jón Gunnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson.“