Norræna hollustumerkið Skráargatið

Föstudaginn 03. febrúar 2012, kl. 12:56:17 (5041)


140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[12:56]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég hélt ræðu þegar mælt var fyrir málinu og fór yfir sjónarmið mín en ég vildi koma upp og fagna því að þetta sé að gerast. Þetta er þingmannamál og mér sýnist að þeir sem hafi sýnt þessu mestan áhuga séu þingmenn úr hinni svokölluðu stjórnarandstöðu. Við vorum þrjú, ég fletti því upp áðan, sem töluðum. Þar af var einn, Ólafur Gunnarsson, varaþingmaður sem talaði með okkur Siv, sem var 1. flutningsmaður, og svo er framsögumaður málsins einnig úr minni hluta þingsins.

Þetta finnst mér gott dæmi um að þingið sé að breytast, því að þótt okkur finnist oft störfin hér ekki til fyrirmyndar getum við vel unnið saman. Það eru tækifæri fyrir þingmenn í minni hlutanum til að koma málum sínum á framfæri og það er vilji til þess að breyta vinnubrögðunum. Það veltur svo mikið á okkur sjálfum að gera það í staðinn fyrir að hoppa alltaf ofan í skotgrafirnar.

Ég fagna því mjög bæði að þingmannamál komist að og sé afgreitt með þessum hætti í gegnum þingið en einnig af því að ég hef svo mikla trú á þessu máli. Ég fór yfir það í ræðu minni þegar mælt var fyrir málinu hve lífið væri flókið og hve upplýsingar sem dynja á fólki væru misvísandi en þetta styttir okkur leið. Ég tek undir það sem 1. flutningsmaður, Siv Friðleifsdóttir þingmaður, sagði áðan um að það þarf að vera eftirlit með þessu. Við höfum horft upp á það bara á síðustu vikum og mánuðum og árum að eftirlitið í samfélaginu hjá okkur hefur algjörlega brugðist. Þetta þarf ekki að vera flókið en það þarf að gera þetta og það þarf að fela einhverjum aðila eftirlit með þessu og við þurfum að geta treyst þessu sem öðru.