Áhrif banns við formerkingum á verðlag

Mánudaginn 13. febrúar 2012, kl. 15:47:06 (5120)


140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

áhrif banns við formerkingum á verðlag.

445. mál
[15:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrra lagi er spurt hvort bann við formerkingum hafi leitt til lækkunar á verðlagi. Því er til að svara að samkvæmt mælingum Hagstofunnar á síðasta ári á smásöluverði kjötvara annars vegar og svo samanburði við upplýsingar sem liggja fyrir um verðþróun frá bændum til afurðastöðva eða kjötvinnslna eru sterkar vísbendingar um að verðhækkun hinnar síðarnefndu hafi ekki skilað sér í sambærilegri hækkun hjá verslun eins og vænta hefði mátt ef kjötvinnslurnar hefðu ekki hætt forverðmerkingum snemma á árinu 2011. Með öðrum orðum má gera ráð fyrir því að afnám forverðmerkinga á smásölu hafi í þessu tilviki aukið samkeppni og verðhækkunin hafi orðið minni en ella hefði orðið ef föst hlutfallsleg smásöluálagning hefði bæst ofan á hækkanir á heildsöluverði kjötvinnslna. Þó að einungis fáeinir mánuðir séu liðnir má ætla að það hafi þegar leitt til þess að auka heldur samkeppni en hitt og þar með lækka verð. Engu að síður er mikilvægt að fylgjast með þróuninni.

Samkeppniseftirlitið hefur varað við því að einhverjir þeir sem koma að verðlagningu kjötvara kunni að reyna að nýta sér þetta bann til að hækka verð til skemmri tíma og af þeim sökum hefur verið haft samband og samstarf við Neytendastofu, talsmann neytenda, Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands til að fylgjast vel með því að breytingarnar komi neytendum raunverulega til góða. Þá hefur Samkeppniseftirlitið sömuleiðis kappkostað að kynna þessar breytingar og svara spurningum sem upp koma í tengslum við það, samanber sérstakar upplýsingar á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Í öðru lagi er spurt hvort þetta bann geti haft samkeppnishamlandi afleiðingar í för með sér fyrir minni verslanir í landinu. Þá verður að hafa í huga að það er þannig til komið að í kjölfar rannsóknar Samkeppniseftirlitsins var mikil skýrsla unnin um viðskiptasamninga birgja og samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði. Rannsóknin leiddi í ljós að allmörg fyrirtæki viðurkenndu brot gegn banni samkeppnislaga um samkeppnishamlandi verðsamráð og greiddu sektir í framhaldi af því að viðurkenna brot sitt. Hagar, Kaupfélag Skagfirðinga, Sláturfélag Suðurlands, Reykjagarður, Norðlenska, Kjarnafæði og Kjötbankinn viðurkenndu öll brot á samkeppnislögum. Tvö fyrirtæki gerðu það ekki, Síld & fiskur og Matfugl, og eru mál þeirra í ferli. Þeim var nýlega lokið með sektum sem fyrirtækin hafa skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þetta kemur ekki upp úr þurru, þetta er ekki eitthvað sem mönnum dettur í hug að fyrra bragði heldur vegna þess að menn stóðu frammi fyrir því að fyrirtækin viðurkenndu brot á samkeppnislögum og að sjálfsögðu kallaði það á aðgerðir. Þessi brot hafa þá verið stöðvuð með því að forverðmerkingar hafa verið aflagðar.

Minni verslanir hafa augljóslega hag af því að brjóta upp náið samstarf kjötvinnslufyrirtækja og stærstu smásölukeðjanna af því tagi sem þarna kom í ljós. Það er vissulega rétt að breytingarnar kunna að hafa einhvern kostnaðarauka í för með sér fyrir minni verslanir eða fyrir verslanir almennt til skemmri tíma litið vegna þess að þær þurfa að koma sér upp þessum búnaði. En hvorugt þessara atriða ætti þó að geta talist samkeppnishamlandi borið saman við kosti þess að hitt eigi sér ekki stað. Þessi kaup ættu í sjálfu sér ekki að vera meira íþyngjandi fyrir minni verslanir því að þær þurfa væntanlega hlutfallslega færri skanna en stærri keðjurnar sem reka margar verslanir. Til dæmis má nefna að verslanir 10–11 komið hafa sér upp búnaði og skanna og líma verðmerkingu á hverja vöru. Það verklag hefur á sinn hátt skapað þeim samkeppnisforskot og ætla má alveg eins að fleiri minni aðilar geti gert hið sama.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2012, um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði, sem kom fram á dögunum. Hún upplýsti um mikinn verðmun milli stærstu verslunarkeðjanna og minni verslana sem fá mun minni eða stundum engan afslátt frá birgjum. Skýrslan skapar minni verslunum tækifæri til að fara í viðræður við birgja sína. Jafnframt mun Samkeppniseftirlitið fylgja því eftir með frekari boðuðum rannsóknum á hinum mikla verðmun. Hagsmunir minni verslana liggja augljóslega fremur í úrlausn þessara mála, þ.e. að unnið sé á þeim mismun sem þarna er fremur en hinu, að stærri birgjar og verslunarkeðjur geti tekið upp ólögmætt samráð um verðmerkingar að nýju.