Áhrif banns við formerkingum á verðlag

Mánudaginn 13. febrúar 2012, kl. 15:55:53 (5123)


140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

áhrif banns við formerkingum á verðlag.

445. mál
[15:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir að málið er ekki einhlítt og er ástæða til að fylgjast vel með hvernig þetta gengur fyrir sig. Þess vegna hefur Samkeppniseftirlitið reynt að virkja með sér þá aðila sem ég nefndi til að fylgjast vel með þessu. Ég hef ekki upplýsingar um hvort þetta hafi beinlínis haft einhver áhrif á sölu og dregið úr henni. Það má færa fyrir því rök að það geti verið ákveðið óhagræði af því fyrir neytendur og þægilegt að hafa fyrirkomulagið eins og það var en það hafði þann mikla skavanka sem ég held að öllum sé ljós þegar þeir hugsa málið, að þegar varan var forverðmerkt úti hjá birgjunum, sem þýddi auðvitað að þegar þeir hækkuðu verð sitt valt sú hækkun sjálfkrafa áfram út í útsöluverðið, út í forverðmerkinguna. Þá var ekki frá því gengið sjálfkrafa að verslunin brygðist við því að einhverju leyti, til dæmis með því að lækka sinn hlut eða reyna að taka hækkunina að einhverju leyti á sig. Það var sjálfvirk trygging fyrir því að verðhækkanir á framleiðslustigi eða verðhækkanir hjá birgjanum rúlluðu áfram út í endanlegt söluverð vörunnar. En það er að sjálfsögðu rétt og skylt að fylgjast með þessu, þar á meðal hvort neytendur telja þetta vera til óhagræðis og/eða hvort verslanir almennt sjái sér þá þann kost að bregðast við, til dæmis eins og ég nefndi í einu tilviki þar sem menn hafa sjálfir tekið upp þá þjónustu að verðmerkja allar kjötvörur, skanna verðið og líma sambærilega verðmiða á vöruna og voru áður og komu frá framleiðandanum.

Ekki er ástæða til að ætla að þetta komi hlutfallslega verr við minni verslanir en stærri og ég held að þær eigi mjög mikið í húfi að þessi samskipti öll séu eðlileg og „heilbrigð“. Nýja skýrslan sem ég nefndi áðan færir okkur heim sanninn um að ástæða er til að fara ofan í saumana á þeim gríðarlega afsláttarmun sem verslanir búa við frá birgjum (Forseti hringir.) eftir því hvort þær eru stórar eða litlar.