Fjárveitingar til heilbrigðisstofnana

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 10:43:43 (5325)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

fjárveitingar til heilbrigðisstofnana.

[10:43]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi fjárlagagerðina er ágætt að rifja það aðeins upp að tillögur til fjárlaga komu í þingið á miðju sumri. Síðan komu tillögur í fjárlaganefnd um breytingar þar sem unnið var samkvæmt skýrslu sem gerð hafði verið eftir heimsóknir á heilbrigðisstofnanir. Þar var ákveðinn hluti landsins sem ekki hafði verið kláraður, það voru Fjallabyggð, Vestmannaeyjar og Hornafjörður og þess vegna var beðið um það milli umræðna við skiptingu á fjármagni að haldið yrði eftir ákveðinni upphæð, sem ég held að hafi verið 26 eða 27 millj. kr., til að ráðstafa til þessara staða.

Í þeim tillögum sem þá voru lagðar fram komu fram ábendingar um að tvær stofnanir á landinu fengju frystingu, þær þyrftu sem sagt ekki að gera upp halla. Það var hluti af lausninni svipað og gert hafði verið varðandi aðrar stofnanir á Reykjanesi og Suðurlandi og fleiri stofnanir. Það var rætt á milli 2. og 3. umr. og til viðbótar var upplýst að á þremur stöðum á landinu hefði verið rangur grunnur vegna útreiknings á húsaleigu fyrir ákveðnar stofnanir og þar með hefði grunnurinn fyrir árið 2011 verið rangur. Óskað var eftir því að það yrði leiðrétt en samkomulag var um það á milli velferðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins að þar sem sá útreikningur lægi ekki endanlega fyrir færu menn ekki með tölurnar inn í frumvarpið á lokastigi heldur kláruðu þá vinnu og það kæmi svo inn á árið 2012 sem sjálfstæð ákvörðun, um það bil 50 millj. kr. á þrjár stofnanir. Þannig var það afgreitt og má alltaf deila um hvort menn hafi þar ýtt hlutunum yfir á næsta ár.

Einnig var lögð áhersla á að þegar þingið bætti svo í þann pott sem fara átti í þessar þrjár stofnanir, um það bil 70 millj. kr. — það fór upp í 100 millj. plús, og var síðan bætt við fjárveitingu til einstakra stofnana eins og Landspítalans og fleiri — að við mundum skipta því út þannig að menn hefðu það inni í rekstrargrunninum strax í upphafi, það væri vinnan sem unnin væri til að jafna féð á milli stofnana. Unnið væri með hvar sársaukamörkin lægju og teknir út þættir sem við töldum að mættu alls ekki detta út, (Forseti hringir.) svo sem endurhæfingin á Sauðárkróki, barnadeildin á Akureyri o.s.frv. Það var sett inn í dæmið á síðustu stigum. Ég skal koma betur að því í seinna svari.