Fjárveitingar til heilbrigðisstofnana

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 10:47:33 (5327)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

fjárveitingar til heilbrigðisstofnana.

[10:47]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi meginspurninguna sem ég svaraði ekki almennilega í fyrri hlutanum, þetta með hvort við þurfum ekki að fara heildstætt yfir þetta, er það í rauninni það sem menn hafa verið að reyna að gera og verið að klára. Ég skal alveg hreinskilnislega segja, eftir að hafa skoðað og farið yfir þetta mjög ítarlega, að ég lagði það þannig upp að sá niðurskurður sem er á árinu 2012 sé lokaniðurskurðurinn á þessum heilbrigðisstofnunum, einfaldlega vegna þess að menn eru búnir að skila því fyllilega sem þurfti til að endurstilla samfélagið. Þess vegna vorum við líka að fínstilla þetta með að taka inn ákveðna þætti, passa að ekki verði lokað í Neskaupstað og fleiri slíka þætti. Það er þess vegna sem við erum að nota þennan pott í það eins og þingið lagði fyrir okkur að gera.

Aftur á móti er verið að vinna í heildarstefnunni og við þurfum að vinna í henni. Það er ágreiningur um það þegar hv. þm. Kristján Þór Júlíusson óskaði eftir því að við tækjum okkur lengri tíma, drægjum þetta, en allir þeir sem ég talaði við á starfsmannafundum á stofnununum sögðu: Komið með skilaboðin strax, klárið verkefnið, ekki láta þetta halda áfram að hanga yfir okkur.

Það var það sem við vorum að reyna að gera. Ég legg þetta því þannig upp og vona að það hafi til þess styrk að ekki verði frekari niðurskurður á þessum (Forseti hringir.) stofnunum heldur vinnum við með þann grunn sem við erum að leggja núna. Þess vegna þurfti húsaleigan og ýmislegt annað að koma inn í grunn sem varanleg leiðrétting. Þó að það komi til bráðabirgða á þessu ári verður það varanlegt á næsta ári.