Fjarvera forsætisráðherra á viðskiptaþingi

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 10:49:04 (5328)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

fjarvera forsætisráðherra á viðskiptaþingi.

[10:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við sem störfum hér höfum margoft sagt og þekkjum það að til þess að hafa efni á öflugu velferðarkerfi þurfi jafnframt að hafa öflugt atvinnulíf. Það skiptir miklu að gott samstarf sé á milli framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar, Alþingis og atvinnulífsins. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú og ég held að allir séu sammála um það. Þess vegna vakti fjarvera forsætisráðherra í gær á viðskiptaþingi Viðskiptaráðs mikla athygli. Ég tel rétt að forsætisráðherra komi hingað upp og upplýsi okkur um það og komi því á hreint hvers vegna sú fjarvera kom til. Skilaboðin sem virðast koma úr forsætisráðuneytinu og frá forsætisráðherra vegna þessa máls eru þau að verið sé að virða Viðskiptaráð að vettugi og að atvinnulífið sé orðið að eins konar óvini forsætisráðherra, sem ég vona svo sannarlega að sé ekki, og tel rétt að forsætisráðherra upplýsi okkur um þetta.

Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra hefur gefið sig út fyrir það að aðhyllast samræðustjórnmál og leggja mikið upp úr því og jafnframt hefur Samfylkingin á undanförnum árum reynt að færa sig í þá átt að hafa mikið og gott samstarf við atvinnulífið. Þess vegna tel ég eðlilegt að forsætisráðherra svari þeim spurningum sem vöknuðu í gær hjá þeim sem sátu á viðskiptaþingi og eins sem berast okkur í fjölmiðlum í dag.

Forsætisráðherra hefur verið ötull talsmaður þess að hafa hér öflugt velferðarkerfi og forsætisráðherra hlýtur að vera sammála mér um að til þess að svo sé þurfi atvinnulífið að vera öflugt.