Fjarvera forsætisráðherra á viðskiptaþingi

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 10:51:03 (5329)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

fjarvera forsætisráðherra á viðskiptaþingi.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara mótmæla þessari framsetningu sem hér er sett fram af hálfu hv. þingmanns. Hvernig dettur henni það í hug að ég sé að virða atvinnulífið að vettugi þótt ég mæti ekki á viðskiptaþing og hafi haft forföll? Ég þarf ekkert að gera hv. þingmanni eða þinginu grein fyrir því hver þau forföll voru. Þetta voru lögmæt forföll. (Gripið fram í.) Ég hef mætt á öll þessi þing hjá atvinnulífinu að ég best man, alveg frá upphafi nema á þetta þing sem ég gat ekki mætt á. Að leggja það síðan út þannig að ég sé á móti atvinnulífinu og hafi allt á hornum mér út af því, það er bara rangt. (Gripið fram í: Nú?) Ég hygg að það hafi aldrei, (Gripið fram í.) hversu langt aftur í tímann er leitað, verið haft eins mikið samráð í sambandi við kjarasamninga og gert hefur verið hjá þessari ríkisstjórn. Ég hygg að aldrei nokkurn tímann hafi verið lagðir eins miklir fjármunir í það að ná hér kjarasamningum eins og af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem (Gripið fram í.) skipta tugum milljarða króna (Gripið fram í.) til að auðvelda kjarasamningana. (Gripið fram í.) Það er auðvitað rangt sem haldið hefur verið fram að við höfum í engu staðið við þá kjarasamninga. Við höfum farið yfir það hér og ég hef farið yfir það með atvinnulífinu og þeir vita alveg hver staðan í þessu máli er, (Gripið fram í.) að það er fyrst og fremst í tveimur þáttum af þeim 44 atriðum sem við höfum sett fram sem við höfum ekki getað staðið við. Það eru vegamálin vegna þess að ekki náðist samstaða um að koma á veggjöldum (Gripið fram í.) og síðan það að ljúka því stóra verkefni sem er lífeyrismálin. Sjálfstæðisflokkurinn ætti nú þar að horfa í eigin barm sem hafði 15 ár til að ljúka við það verkefni að fara í uppgjör á þeirri skuld sem er í lífeyriskerfinu hjá opinberum starfsmönnum, um 350 milljarða kr., og það tekur meira en nokkra mánuði hjá okkur að setjast við samningaborðið með þeim sem við höfum gert til þess að reyna að klára það verkefni.

Mér finnst þetta ósvífni í hæsta máta af (Forseti hringir.) hv. þingmanni að gera því eitthvað skóna að sú sem hér stendur (Gripið fram í.) eða ríkisstjórnin sé á móti atvinnulífinu. Þvert á móti tala tölur sínu máli um þann uppgang sem núna er í efnahags- og atvinnulífinu. (Gripið fram í: Lestu skýrslu ASÍ.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum tóm til að flytja mál sitt.)