Norræna hollustumerkið Skráargatið

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 11:26:27 (5349)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[11:26]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér fer fram atkvæðagreiðsla þar sem þingið ætlar að lýsa vilja sínum til þess að það eigi að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið. Sú er hér stendur er 1. flutningsmaður og það eru þingmenn úr öllum flokkum á þessu máli. Það er búið að flytja það nokkrum sinnum en núna erum við sem sagt að fara að samþykkja það. Atvinnuveganefnd hefur unnið þetta mál og ég þakka henni fyrir sköruleg vinnubrögð undir forustu hv. formanns hennar, Kristjáns Möllers, og ég þakka líka talsmanninum, Þór Saari, sem hélt mjög vel utan um þetta mál. Þetta er annað málið sem fer hér í gegn með þessum breyttu vinnubrögðum, talsmönnum sem halda utan um mál.

Þetta sýnir líka að Alþingi Íslendinga er að breytast. Það er oft talað illa um Alþingi, en þessi vinnubrögð sýna að þingmenn eru núna að ná í gegn málum í sátt og samlyndi með aðstoð allra í nefndum. Það eru ekki bara ríkisstjórnarmál sem eru samþykkt hér, það eru líka þingmannamál.

Til hamingju, segi ég við Alþingi. Það er mjög gott (Forseti hringir.) að sýna þessi nýju vinnubrögð og vonandi höldum við áfram að vinna svona með þessum nýju og bættu vinnubrögðum.