Norræna hollustumerkið Skráargatið

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 11:28:56 (5351)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[11:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Já, það er ánægjulegt að við skulum vera að samþykkja þingsályktunartillögu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og fleiri hafa flutt á nokkrum þingum þar sem lagt var til að fela hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann beitti sér fyrir því að taka upp norræna hollustumerkið. Nú erum við að samþykkja þingsályktunartillögu en ekki þá grein sem hér er heldur þingsályktunartillöguna almennt. Eins og hér hefur komið fram, m.a. frá framsögumanni nefndarinnar, Þór Saari, tók nefndin það jafnframt strax upp að fara alla leið og klára lagabreytinguna. Hér er sem sagt frumvarp sem bíður 2. umr. og verður svo klárað þar sem breytingar eru gerðar á matvælalögum í því skyni að auðvelda og hraða framkvæmdum enn frekar við að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið.

Það má taka undir það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði, hér eru dálítið öðruvísi vinnubrögð á Alþingi en hafa tíðkast. Nefndin ákvað sem sagt að taka þetta mál upp á sína arma og flytja frumvarp (Forseti hringir.) í stað þess að bíða eftir framkvæmdarvaldinu sem hefur nóg að gera við annað í raun og veru.

En það má segja: Til hamingju, Alþingi, með að hafa (Forseti hringir.) tekið upp þessi vinnubrögð.