140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[11:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að fá að flytja skýrslu um nýgenginn dóm Hæstaréttar. Það sem nokkuð ótvírætt virðist mega lesa út úr dómi Hæstaréttar nr. 600/2011 er að í fyrsta lagi staðfestir dómurinn að vextir Seðlabanka Íslands séu sá grunnur sem miða beri við við endurútreikning gengistryggðra lána, og frá upphafi. Í dómnum í gær er í III. kafla fjallað um þetta atriði og þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Í forsendum dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 kom meðal annars fram að umsamin vaxtakjör af gengisbundnu láni hefðu ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem fyrir lægi að óheimilt hefði verið að kveða á um.“

Síðar segir:

„Vegna þessa væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í samningnum væri hins vegar ákveðið að skuldin bæri vexti. Var komist að þeirri niðurstöðu að um þá skyldi fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Í forsendum hæstaréttardómsins 14. febrúar 2011 var berum orðum sagt að fyrrgreindur dómur réttarins 16. september 2010 hefði fordæmisgildi við úrlausn ágreinings aðilanna um vexti af skuldbindingum samkvæmt lánssamningum þeirra. Með þessu var fallist á með varnaraðila að skuld sóknaraðila samkvæmt skuldabréfi nr. 712986 skyldi bera allt frá upphafi vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001,“ þ.e. seðlabankavextina.

Um þetta voru allir sjö hæstaréttardómararnir sammála í gær. Hæstiréttur rekur sömuleiðis þá meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi sem fengið hefur minna greitt en hann á rétt til í lögskiptum aðila, eigi viðbótarkröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er og að tilkall til slíkrar viðbótargreiðslu eigi sér örugga stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Af meginreglunni leiði að einungis við sérstakar aðstæður verði tilkalli kröfuhafa um viðbótargreiðslu hafnað. Á sú regla sér einnig stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Frá meginreglunni um seðlaendurreikning á grundvelli seðlabankavaxtanna geta með öðrum orðum verið undantekningar, m.a. um að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari rétti.

Í málinu sem hér um ræðir var lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar sem varnaraðili sendi um væntanlega gjalddaga lánsins með útreikningum á fjárhæð sem greiða skyldi og síðan fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við tilkynningar, hafi jafngilt fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni.

Við mat á þessari undanþægu reglu lítur Hæstiréttur til eftirfarandi atriða:

a. að skuldarar voru í góðri trú um lögmæti skuldbindinganna og að misskilningur um lagaskilning sé þeim að öllu leyti afsakanlegur,

b. að skuldbindingin var til langs tíma, eða þrjátíu ára,

c. skuldarar höfðu alltaf verið í skilum og

d. kröfuhafi var fjármálafyrirtæki.

Að öllu framangreindu virtu telur Hæstiréttur að sá rangi lagaskilningur sem lá til grundvallar lögskiptum aðila, þ.e. hin ólöglega tengdu gjaldeyrislán, verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar í þessu tilviki. Kröfuhafi getur því ekki krafið skuldara um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann.

Þetta virðist liggja nokkuð ljóst fyrir. Hins vegar er ýmislegt annað sem enn er óljóst þrátt fyrir þennan gengna dóm. Það er í fyrsta lagi vegna þess að dómurinn byggir á undantekningu frá meginreglu, hann er mjög einstaklingsbundinn og byggir á nokkrum fyrri dómum um lögskipti aðila. Af því leiðir að erfitt er að meta nákvæmlega hversu víðtækt fordæmisgildi dómsins er, t.d. hvaða tímamörk á að miða við þegar meta á frá hvaða tíma á að endurreikna lán. Í dómnum er ekki að finna svar við því hvaða tímamark ætti almennt að gilda. Það virðist því þurfa að skoða hvert og eitt mál og samskipti kröfuhafa og skuldara í hverju einstöku tilviki. Sömuleiðis hvort metið sé svo að skuldari sé alltaf grandalaus um lögmætið og þá frá hvaða tímapunkti, hvaða lán teljist hafa verið í skilum og í hvaða tilvikum skuldari teljist hafa fengið fullnaðarkvittun fyrir greiðslu. Síðan koma ýmis önnur álitamál sem snúa að lánum í frystingu o.s.frv.

Þegar víkur að lögum nr. 151/2010 sem hér koma að sjálfsögðu við sögu er mikilvægt að taka fram eftirfarandi: Lögin voru sett til að taka á réttaróvissu sem uppi var eftir dóma Hæstaréttar í júní og september 2010 til að jafna rétt skuldara þar sem það var ekki talið ásættanlegt að viðhalda óvissu um umfang skulda heimila með gengistryggðar skuldbindingar. Lögin mæltu fyrir um leiðréttingu allra gengistryggðra lána heimila, jafnt til bílakaupa og íbúðakaupa óháð lánaskilmálum. Án þeirra hefðu hátt í 80 þús. skuldarar hugsanlega þurft að sækja rétt sinn til dómstóla og það kynni að hafa orðið tilviljunum háð hvort réttur hefði fengist dæmdur, enda dæmi um lögmæta og ólögmæta skilmála innan sömu stofnunar.

Lögin opnuðu í þriðja lagi rétt fólks til að sækja leiðréttingar þótt samningar væru fullefndir og kváðu á um að fyrningarfrestir giltu ekki þannig að unnt væri að taka upp gjaldþrot og fjárnám á grundvelli samninganna. Lögin fólu í sér verulegar réttarbætur til þeirra sem hér áttu í hlut, einfölduðu stórkostlega úrvinnslu þessara mála og færðu mönnum umtalsverð réttindi sem ekki var ljóst að þeir hefðu á þeim tíma. Hitt lá alltaf ljóst fyrir og kom skýrt fram að lögunum var ekki ætlað að taka betri rétt af skuldurum en lesa mátti úr dómum Hæstaréttar á þeim tíma. Skýrt var tekið fram að ef fólk ætti ríkari rétt yrði hann því dæmdur því að kröfuréttindin nytu stjórnarskrárverndar og hún gengi framar lögunum. Þetta staðfesta bæði meiri og minni hluti dómsins.

Það verður ekki séð að neins konar skaðabótaskylda ríkisins sé hugsanleg við þessar aðstæður. Ekki verður séð að með lögum nr. 151/2010 hafi nein fjárhagsleg réttindi verið höfð af fólki eða að aðilar hafi orðið fyrir tjóni vegna laganna. Þvert á móti. Markmið laganna var að skilgreina og veita rétt en í engum tilvikum að taka hann af fólki. Það er misskilningur sem mikilvægt er að leiðrétta að í dómi Hæstaréttar komi fram að lög nr. 151/2010 fari gegn stjórnarskránni. Dómurinn staðfestir það sem fram kom við setningu laganna, þau skerða ekki hugsanlegan betri rétt fólks. Lögin færðu hins vegar mönnum ekki eða gerðu tilraun til að færa mönnum fyrir fram hugsanlega ríkari rétt. Það gera þau vissulega ekki, enda hefði þá verið tekin mikil áhætta, samanber ef niðurstaða Hæstaréttar í gær hefði orðið afstaða minni hlutans. Varúðarsjónarmiðin sem þarna voru höfð að leiðarljósi hafa því reynst skynsamleg.

Þegar víkur að hinum efnahagslegu áhrifum niðurstöðu dómsins eða áhrifanna á fjármálakerfið er mikilvægt að fjalla um það af yfirvegun, m.a. í ljósi óvissunnar um lagaleg álitamál sem enn eru uppi og endanleg fjárhagsleg áhrif, en hægt er að segja eftirfarandi:

Fjármálakerfið er mjög vel fjármagnað og þolir þetta áfall. Eiginfjárgrunnur stóru bankanna var um mitt ár 2011 um 500 milljarðar kr. sem er nálægt 22% af efnahagsreikningi. Eiginfjárgrunnur bankanna þriggja er nálægt 150 milljörðum kr. umfram núgildandi eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins, þ.e. 16%. Þar er því mikið svigrúm til staðar til að takast á við áfall af þessu tagi. Það liggur að sjálfsögðu ekki fyrir (Gripið fram í.) hversu mikið það er á einstaka banka og mikilvægt að það verði greint á næstunni. (Gripið fram í: Fara í annan leiðangur?)

Það sem hægt er að segja samandregið, frú forseti, á þessu stigi mála og mikilvægt er að árétta aftur, er að lög nr. 151/2010 tóku engan rétt af einum eða neinum heldur færðu þau tugþúsundum heimila ríkulegan rétt og auðvelduðu uppgjör mála gagnvart þeim. Í öðru lagi er erfitt að meta nákvæmlega á þessu stigi hversu víðtækt fordæmisgildi dómsins er, samanber það sem áður sagði að dómurinn byggir á undantekningu frá meginreglu og að um tiltölulega einstaklingsbundna úrlausn er að ræða eða dóm í afmörkuðu tilviki. Í þriðja lagi er mikilvægt að um þetta sé fjallað yfirvegað á þessu stigi, að ekki séu vaktar óraunhæfar væntingar en um leið sjálfgefið að unnið verður mjög markvisst og yfirvegað að úrvinnslu dómsins og leiðréttingu þeirra mála sem hann felur í sér gagnvart viðkomandi aðilum. (VigH: Ætlarðu að segja af þér?)