140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[11:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sá dómur sem féll í Hæstarétti í gær er fagnaðarefni. Hann skýrir til fulls réttarstöðu hvað varðar endurútreikning lána í kjölfar gengislánadómanna frá árinu 2010 og kveður á um þann rétt sem fólk á og ber að fagna því. Ávallt ber að fagna því þegar fólk nær rétti sínum fram í dómsmáli. Hæstiréttur bætir þarna við fyrri fordæmi sín og skýrir þau frekar.

Lögin nr. 151/2010 standa að öllu öðru leyti en því að ef fólk hefur í hendi fullnaðarkvittun telst hún endanleg greiðsla afborgana í ákveðnum tilvikum sem dómurinn fer nánar yfir.

Það er eðlilegt að menn staðnæmist við lög nr. 151/2010 og velti fyrir sér af hverju þau voru sett. Hvað gekk okkur til? Jú, þau voru sett vegna þess að það var gríðarleg óvissa í samfélaginu í kjölfar gengislánadómanna og það blasti við að fólk í algjörlega sambærilegri stöðu sem tók algjörlega sambærileg lán í sama bankanum gat verið með gild lán eða ógild lán. Það blasti við að tugþúsundir heimila þyrftu að leita til dómstóla til að fá skorið úr um rétt sinn. Við töldum óhjákvæmilegt að reyna að flýta þessu uppgjöri. Með lögunum var það gert.

Var óvissan ríkisstjórninni að kenna? Er sú óvissa sem núna er ríkisstjórninni að kenna eða þeim sem settu þessi lög, Alþingi Íslendinga, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins rakti hér áðan? Ónei. Óvissan núna er engu verri en hún hefði verið ef engin lög hefðu verið sett, svo einfalt er það mál. Þvert á móti hafa tugþúsundir heimila fengið greiðslur vegna þessara laga og innan mjög þröngs tímaramma, svo þröngs tímaramma að bankar voru þvingaðir til að setja tugi starfsmanna í að endurreikna þessi lán og greiða mismuninn út. Það eru þúsundir heimila sem hafa fengið rétt á grundvelli þessara laga, sem voru með gilda lánasamninga og fengu rétt eingöngu vegna þessara laga.

Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins rekur hér ummæli í greinargerð með frumvarpinu, því til staðfestingar að til hafi staðið að rýra rétt fólks, færir hann fram algjörlega röng rök. Þau ummæli í greinargerðinni sem þar er vitnað til réttlæta það inngrip að við ákváðum með lögunum að rýra eignarrétt fjármálastofnana. Við ákváðum að gera ógilda lánasamninga sem voru gildir að efni ef um var að ræða húsnæðislán og íbúðalán vegna þess að enginn dómur hafði fallið á þessum tíma um að íbúðalánin væru ógild. Það er beinlínis rangt að til hafi staðið af hálfu ríkisstjórnar eða löggjafans að rýra kröfuréttindi almennings. Þvert á móti var það ítrekað tekið fram að það kynnu að vera önnur atriði sem ekki yrði ráðið til fulls með þessum lögum sem Hæstiréttur yrði auðvitað að tjá sig um. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þetta er fullkomlega óeðlilegt ástand. Það er fullkomlega óeðlilegt að uppi sé sú staða að Alþingi, löggjafinn, sé að hlutast til um samninga milli aðila á markaði og það er veruleg undantekning frá meginreglu. Þess vegna sögðum við það afskaplega skýrt að við vildum stíga varlega til jarðar.

Við tókum áhættu. Við tókum þá áhættu með lögunum að gera ógild öll íbúðalán. Það var áhætta upp á tugi milljarða, alveg örugglega vel upp í 10 milljarða. Við gerðum það þrátt fyrir að lögmenn kröfuhafa væru búnir að senda hótunarbréf. Við skulum rifja upp hvernig andrúmsloftið var hér haustið 2010 þegar lögmaður kröfuhafa, Ragnar Aðalsteinsson, var búinn að senda hótunarbréf á stjórnendur bankastofnana um hvað biði ef menn rýrðu rétt kröfuhafa á einhvern hátt. Það var alveg ljóst að menn ætluðu sér þá að beina kröfum á hendur ríkinu. Því skipti miklu máli að stíga varlega til jarðar. Við tókum áhættu hvað íbúðalánin varðaði og með dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011 var staðfest að sú áhætta var réttlætanleg, ríkið varð ekki fyrir tjóni vegna þess.

Síðan hafa verið þau sjónarmið uppi að í fullnaðarkvittun fælist meiri réttur og hann ætti að ganga framar ákvörðuninni um seðlabankavexti sem fólst í dómi Hæstaréttar 16. september 2010. Vel að merkja staðfesti Hæstiréttur í gær að seðlabankavextir giltu afturvirkt en sagði: Ef menn hafa fullnaðarkvittun gengur hún framar í ákveðnum tilvikum. Gott.

Ég taldi það í gær að gamni mínu að ég hef að minnsta kosti átta sinnum sagt í þessum ræðustól í fyrra að það kynni vel að vera að fólk hefði meiri rétt á grundvelli þeirrar meginreglu að í fullnaðarkvittun fælist fullnaðargreiðsla en það væri atriði sem dómstólar yrðu að tjá sig um, það væri svo mikil áhætta í því fólgin fyrir löggjafann að taka af skarið um slíkt og baka þar með ríkissjóði mögulega bótaábyrgð að það væri ekki réttlætanlegt. Dómstólar yrðu að fá að tjá sig um það. Ég fagna því að þeir hafa gert það núna og skapað fólki þennan rýmri rétt.

Virðulegi forseti. Þessi niðurstaða er þess eðlis að við tökum hana auðvitað mjög alvarlega en ákvörðunin sem við stóðum frammi fyrir haustið 2010 var erfiður jafnvægisgangur. Við vorum að reyna að finna lausn sem mundi greiða fyrir skuldauppgjörum og koma í veg fyrir að tugþúsundir heimila þyrftu að fara kostnaðarsama leið og sækja sér rétt fyrir dómstólum. Sá ásetningur okkar skilaði þeim árangri að, eins og ég segi, um 80 þúsund lántakar eru nú búnir að fá endurútreikning sinna lána. Hæstiréttur hefur nú sagt að fólk fái enn betri rétt í ákveðnum tilvikum. Það er fagnaðarefni. Ljóst er að við bökuðum ríkinu ekki skaðabótaskyldu með þessum aðgerðum, sem er líka fagnaðarefni.

Hörmulegasta niðurstaðan hefði verið sú ef við hefðum ákveðið á Alþingi Íslendinga tilteknar uppgjörsreglur á hæpnum forsendum og dómurinn í gær hefði farið 4:3 í hina áttina. Þá þyrfti almenningur í landinu, ríkissjóður Íslands, að borga bönkum skaðabætur upp á tugi milljarða. Okkur bar að fara varlega. Við vorum að feta einstigið gagnvart stjórnarskrárvernduðum kröfuréttindum. Við fórum fram af varkárni, (Forseti hringir.) við tryggðum fólki mikinn rétt, það fær núna meiri rétt frá dómstólum sem eru einir þess bærir að dæma fólki endanlega rétt í þessu landi.