140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[11:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er hárrétt sem síðasti hv. ræðumaður benti á, að dómstólar í landinu eru að færa almenningi leiðréttingu vegna gengisbundinna lána.

Þann 18. desember árið 2010 voru samþykkt lög hér sem vissulega fólu í sér ákveðnar réttarbætur til handa skuldurum þessa lands. Hins vegar vöruðum við framsóknarmenn við því að málið yrði samþykkt eins og það var og höfðum ítrekað uppi varnaðarorð við ríkisstjórnina, m.a. vegna afturvirkni laganna sem við töldum að gæti staðið gegn stjórnarskrá lýðveldisins.

Það vorum ekki bara við framsóknarmenn sem bentum á þetta. Ása Ólafsdóttir benti á þetta, umboðsmaður skuldara kom með mjög alvarlegar athugasemdir varðandi það frumvarp sem þá var gert að lögum á Alþingi. Hvað var gert? Það var ekkert hlustað. Þetta minnir okkur á mörg önnur mál sem ríkisstjórnin hefur fengist við þar sem hún hlustar einfaldlega ekki á færustu sérfræðinga okkar.

Nú kemur hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra hingað upp og heldur því fram að þau lög sem samþykkt voru á Alþingi brjóti ekki í bága við stjórnarskrána þegar það kemur akkúrat fram í dómsorði Hæstaréttar Íslands að það frumvarp og þau lög sem hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra reynir að verja brjóta í bága við stjórnarskrá.

Með leyfi frú forseta, stendur í dómsorði:

„… að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, samanber 72. gr. stjórnarskrárinnar.“

Þetta stendur skýrt. Samt kemur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hingað upp og andmælir Hæstarétti Íslands. Það er ekki okkur bjóðandi að hæstv. ráðherra skuli koma hingað upp og gera lítið úr Hæstarétti Íslands. Þó svo að ríkisstjórnin harmi þessa niðurstöðu eins og fram kom í máli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hér áðan eru það gleðifréttir fyrir þúsundir Íslendinga að nú skuli leiðrétting fara fram á gengisbundnum lánum (Efnh.- og viðskrh.: Hvenær harmaði ég það?) upp á tugi milljarða kr.

Hæstv. ráðherra lagði sig hér fram við að réttlæta þau lög sem hann ber ábyrgð á og virðist ætla að bera það á Hæstarétt Íslands að hann hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði þessara laga stríða gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Nú er það kostulega að koma í ljós, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði áðan að það væri heilmikið svigrúm til hjá bönkunum til að koma til móts við skuldug heimili í landinu. Sama ríkisstjórn sagði hér fyrir tveimur árum að það mundi mögulega stofna fjármálastöðugleika í hættu ef ekki yrði miðað við lægstu vexti Seðlabanka Íslands. Og hvað sagði Fjármálaeftirlitið? Fjármálaeftirlitið sagði það sama, að það mundi stefna fjármálastöðugleika í óvissu ef menn mundu fara þá leið sem Hæstiréttur hefur komist að með dómi sínum sem felldur var í gær. Nú er svigrúmið gríðarlegt, segir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og er þar með kominn í hrópandi mótsögn við sjálfan sig í þessu máli.

Fullyrðingar okkar framsóknarmanna um að það sé raunverulegt svigrúm til skuldaleiðréttingar til handa skuldugum heimilum og fyrirtækjum í landinu sanna sig enn og aftur. Staðreyndin er sú að þær leiðréttingar sem að mestu hafa farið fram gagnvart skuldugum heimilum hafa komið frá dómstólum þessa lands en ekki ríkisstjórninni. (Gripið fram í: Rétt.) Það er áhyggjuefni út af fyrir sig að horfa til þeirra heimila sem í góðri trú hafa skipt við Íbúðalánasjóð og tekið verðtryggð lán vegna þess að með þessum dómi er verið að auka enn á misvægið gagnvart þeim lántakendum sem annars vegar tóku gengistryggð lán og hins vegar þeim sem tóku lán sem fylgja verðlagi sem hefur hækkað um ríflega 40% á undangengnum þremur árum.

Þess vegna þurfum við þjóðarsátt, við þurfum þjóðarsátt um skuldaleiðréttingu. Hér er um réttlætismál að ræða og vegna orða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra áðan, um að það væri heilmikið svigrúm til staðar hjá bönkunum vegna þess að eigið fé þeirra væri svo gríðarlega mikið, hljótum við að geta komist að þeirri niðurstöðu í sameiningu að farið verði í almennar leiðréttingar þegar kemur að skuldum heimilanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Hvað varðar þessa ríkisstjórn er brotaferill hennar er snertir grundvallarreglur samfélagsins að verða ærið langur. Við skulum rifja upp þegar hæstv. forsætisráðherra gerðist sek um brot á jafnréttislögum, hæstv. umhverfisráðherra var dæmd af Hæstarétti Íslands, þeim sama og kvað upp dóm sinn í gær, vegna skipulagsmála í Flóahreppi og stjórnlagaþingið fór eins og það fór þegar Hæstiréttur Íslands úrskurðaði þá kosningu ógilda. Nú ræðum við enn eitt málið hvað varðar núverandi ríkisstjórn er snertir gengistryggð lán heimilanna í landinu. Þetta er að verða hálfgerð síbrotaríkisstjórn þegar kemur að grundvallarreglum í samfélagi okkar, það sannar sagan.

Það er alvarlegt mál að brjóta stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur svarið eið að, og að hann komi hingað upp og tali gegn dómum Hæstaréttar er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál.

Frú forseti. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar okkar framsóknarmanna nýtti ríkisstjórnin sér ekki einstök tækifæri til að koma til móts við skuldsett heimili með almennri lánaniðurfærslu eins og frægt er orðið. Með því tapaði samfélagið hundruðum milljarða. Nú hefur ríkisstjórnin verið fundin sek um að leggja drápsklyfjar á íslensk heimili langt umfram það sem lög heimila. Í tilraun sinni til að bæta hlut kröfuhafa bankanna og auka skuldabyrði heimilanna hefur ríkisstjórnin gerst brotleg við stjórnarskrá. Slík ríkisstjórn hlýtur að víkja. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)