140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við hefur verið kallað eftir réttlæti, leiðréttingu, að viðurkenndur væri forsendubresturinn sem varð hjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum við hrun bankakerfisins. Við framsóknarmenn höfum talið lausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja vera forsendu fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs, ólíkt ríkisstjórninni sem virðist hafa talið að endurreisn bankanna væri forsendan fyrir endurreisninni.

Því er mikilvægt að hafa í huga að sú leiðrétting sem skuldarar þessa lands hafa fengið hefur fyrst og fremst komið í gegnum dómstóla en ekki vegna aðgerða stjórnvalda, fyrst í gegnum dóm um ólögmæti gengistryggingarinnar og nú í gegnum dóm um að afturvirkni vaxtaútreikningsins, sem lögleiddur var í desember 2010, stangist á við stjórnarskrá.

Hvað segir dómurinn okkur? Hann staðfestir að ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis hafi brugðist. Hann staðfestir að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi brugðist. Ég kalla eftir þeirri stjórnsýsluúttekt á þessum tveimur stofnunum sem við höfum þegar samþykkt að þurfi að fara fram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Dómurinn staðfestir þær veigamiklu athugasemdir sem fram komu hjá umsagnaraðilum og við í stjórnarandstöðunni bentum á í umræðum um málið.

Í máli hv. þm. Helga Hjörvars kom fram að unnið hefði verið málefnalega að þessum lögum. Því hafna ég algjörlega. Við vinnslu málsins kom fram að lögin stönguðust á við stjórnarskrána, að lögin gætu stangast á við neytendasjónarmið, að reiknireglan væri mjög óskýr, jafnvel svo óskýr að mismunur og vaxtavextir komu fyrir í þeim dæmum sem lögð voru fyrir nefndina, jafnvel svo óskýr að sama lánafyrirtækið getur komist að mismunandi niðurstöðu varðandi útreikning á lánunum. Það get ég ekki sagt að séu málefnaleg vinnubrögð. Það eru ekki vönduð vinnubrögð.

Kallað var eftir því frá Alþingi að leiðbeiningar kæmu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu um hvernig túlka ætti þessa sérreglu. Þær leiðbeiningar komu aldrei fram.

Í dómnum segir að greiðslutilkynningar og fyrirvaralaus móttaka jafngildi fullnaðarkvittun. Hann segir að lánveitandinn verði að bera þann vaxtamun sem varð vegna hinna ólögmætu gengistryggðu lána. Dómurinn segir líka að öll leiðrétting verði að vera til framtíðar og það er mjög mikilvægt að hafa það í huga; öll leiðrétting verður að vera til framtíðar á gengistryggðu lánunum.

Gleymum því ekki að hér er Hæstiréttur að leiðbeina okkur um það hvernig við getum leiðrétt verðtryggðu lánin. Við getum gert það til framtíðar, fyrir því eru fordæmi. Árið 1972 var þak sett á hækkun verðbóta og vaxta á húsnæðislán til framtíðar. Alla vega þrívegis hefur innlendri verðlagsvísitölu verið breytt framvirkt á gildandi lánasamningum til framtíðar. Við höfum afnumið verðtryggingu á launum og því getum við afnumið verðtryggingu á neytendalánum svo lengi sem við gerum það til framtíðar.

Nú verða stjórnvöld að axla sína ábyrgð. Ríkisstjórn sem ekki hlustar á þjóð sína, leiðréttir ekki forsendubrestinn og hlustar ekki á umbjóðendur sína verður einfaldlega að víkja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)