140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[13:03]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er ef til vill tilgangslítið að reyna að leiðrétta það hér þegar manni eru gerðar upp skoðanir eða lögð orð í munn en ég ætla engu að síður þingtíðindanna vegna að gera það. Það var ekki rétt eftir mér haft af hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að ég hefði harmað niðurstöðu Hæstaréttar. (BJJ: Þú varst ekki glaður.) Ég viðhafði engin slík orð og menn eiga að reyna að venja sig af því að gera mönnum hreinlega upp skoðanir eða leggja þeim orð í munn sem alls ekki hafa fallið úr þeirra munni. Ég viðhafði engin slík orð né talaði ég gegn dómi Hæstaréttar, enda er hann eins og hann er. Ég vakti til dæmis ekki einu sinni athygli á því að dómurinn var klofinn í afstöðu sinni, en þetta er dómur engu að síður byggður á meiri hluta. Auðvitað er það þannig, eins og hér hefur komið fram, að ef fólk á ríkari rétt verður hann ekki frá því tekinn enda viljum við ekki búa í slíku samfélagi og það er fagnaðarefni ef hann kemur þá að lokum fram í gegnum dóma dómstóla.

Í öðru lagi vil ég leggja á það áherslu að upphaf þessa alls, sem kannski hefur farið lítið fyrir í umræðum hér og er stórt rannsóknarefni — það er kannski tilefni til vissrar rannsóknar þar jafnerfitt og þetta mál er allt saman búið að vera okkur — er sú ótrúlega staðreynd að hér komst á og viðgekkst umfangsmikil lánastarfsemi í íslenska fjármálakerfinu um langt árabil sem svo að lokum var dæmd á ólöglegum grunni. Hvernig gat það gerst? Vissu engir betur eða var það bara þannig að meðan allt lék í lyndi, meðan gengið var sterkt og vextirnir lágir, ja, þá var öllum sama? Þarna liggur upphafið og það er úr þeirri stöðu sem við erum síðan að reyna að vinna. (Gripið fram í: … FME …)

Varðandi lög nr. 101/2010 verður því ekki á móti mælt að þau höfðu þann stóra tilgang að tryggja öllum heimilum með gjaldeyristryggð lán endurreikning í framhaldi af dómi Hæstaréttar. Ekki bara afmörkuðum hópi bílalána á grundvelli tiltekinna skilmála, sem var það eina sem dómurinn fjallaði um, heldur öllum lánum. Alþingi tók þá áhættu, sem reyndist réttmæt, að afgreiða á einu bretti að öll slík lán skyldu strax endurreiknuð lántakendunum til stórkostlegra hagsbóta. Á grundvelli þess hafa gjaldeyrislán vegna bílakaupa og húsnæðis verið færð niður um yfir 140 milljarða kr. til viðbótar þeim 60 milljörðum sem íslensk lán hafa verið færð niður, en þannig er u.þ.b. staðan í dag að lækkun lána heimilanna er um 200 milljarðar kr. Það er misskilningur að samningar milli gömlu og nýju bankanna sanni ekki gildi sitt í þessu tilviki, það gera þeir einmitt vegna þeirrar aðferðar sem þar var valin. Það eru eigendur bankanna sem taka á sig þetta högg í tilviki Arion banka og Íslandsbanka og í tilviki Landsbankans verður það (Forseti hringir.) að hluta til uppgjörsbréfið milli gamla og nýja bankans sem ber þennan kostnað vegna þess að eignasafnið reynist þá ekki eins verðmætt.

Aðferðafræðin sannar því gildi sitt sem og það hversu (Forseti hringir.) mikilvægt það var að setja kerfið af stað sterkt fjármagnað þannig að það (Forseti hringir.) réði við óvissu og möguleg áföll af þessu tagi.