Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 14:06:56 (5384)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál er sett á dagskrá. Það er mikilvægt að við ræðum það hér á þinginu, enda lífeyrismál á Íslandi einn af mikilvægustu málaflokkunum sem við tökum til umræðu. Í því sambandi er nærtækt að benda á að innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða eru nú 32 sjóðir með nærri 200 þúsund greiðandi sjóðsfélaga. Eignir þessara sjóða eru í dag metnar á um 2.000 milljarða kr., þær voru um 1.700 milljarðar kr. í árslok 2007. Þannig að það dylst engum að við erum að tala hér um afar mikilsverð réttindi launafólks í landinu sem varðar miklu að vel sé haldið um. Það er líka út af fyrir sig fagnaðarefni að lífeyrissjóðirnir skyldu sjálfir hafa átt frumkvæði að þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Ég vil að það komi fram að ég lít svo að við séum að hefja umræðuna, þetta sé upphaf hennar, og að margt eigi eftir að skoða og margt eigi eftir að gerast, og þess vegna sé alls ekki tímabært að fara að komast að einhverri niðurstöðu, hvorki í dag né á næstu dögum, um það hvernig rétt sé að bregðast við. Í því samhengi er rétt að minna á að Alþingi hefur jafnframt ályktað um að þessi mál verði tekin til sérstakrar skoðunar.

Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að sú nefnd sem skilaði af sér þessari efnismiklu skýrslu — og hana hef ég ekki lesið alla, ekki staf fyrir staf, ég hef þó lesið valda kafla og kynnt mér allar helstu niðurstöður nefndarinnar, meginniðurstöðurnar — beinir ákveðnum álitaefnum til Alþingis og hvetur þingið til að taka þau mál til sérstakrar skoðunar. Það ber okkur að sjálfsögðu að gera og þær ábendingar verðum við að taka alvarlega.

Það hefur margt verið rætt hér í tilefni af útgáfu skýrslunnar og málið hefur verið skoðað frá mörgum ólíkum sjónarhornum. Ég ætla að koma við nokkra helstu þætti málsins eins og það blasir við mér.

Fyrst langar mig að nefna að ég tel hæpið að leggja alla áherslu á það hvernig lífeyrissjóðirnir ávöxtuðu sitt fé á árunum frá 2008 til 2010. Ástæðan er sú að ég tel að í upphafi þess tímabils höfum við verið stödd í gríðarlega mikilli eignabólu. Það er augljóst ef við skoðum þróun verðbréfamarkaða yfir þetta tímabil að ef við miðum upphafspunktinn við árið 2008 vorum við stödd á gríðarlega miklum þenslutímum. Það er öllum ljóst. Höfum það í huga varðandi hið mikla högg sem hér er verið að tala um í eignir lífeyrissjóðanna. Engu að síður eru upphæðirnar svo sláandi háar að málið verður þeim mun alvarlegra fyrir vikið.

Það vekur þá athygli á öðru sem skiptir máli í þessari umræðu sem er það að höggið kemur mjög misjafnlega við sjóðfélaga eftir því hvar þeir eru staddir í lífeyrissjóðakerfinu. Þetta gríðarlega mikla högg lendir annars vegar á þeim sjóðum sem eru opinberir og hins vegar á ýmsum sjóðum sem eru almennir.

Hvernig er þessu háttað og hvaða máli skiptir það hvort við erum hér að ræða um almenna eða opinbera sjóði? Jú, það skiptir grundvallarmáli vegna þess að hjá almennu sjóðunum er það þannig að þegar eignir lífeyrissjóðsins skerðast þá lækka réttindin. Það eru sem sagt réttindin hjá almennu sjóðunum sem eru breytileg. Hjá opinberu sjóðunum er það þannig að ef högg kemur í eignasafnið, eignir opinberu sjóðanna skerðast — hvað gerist þá? Jú, þá hækkar iðgjaldið. Og það er hið opinbera sem greiðir það. Þannig að á þessu er grundvallarmunur. Sjóðfélagarnir í opinberu sjóðunum eru með þessa tryggingu, þessa vörn, þetta öryggisnet, sem þeir sem eru í almennu sjóðunum hafa ekki og munurinn birtist í því að þar bitnar höggið á réttindunum.

Almannatryggingakerfið kemur síðan þarna inn, eins og hér er bent á, og virkar eins og öryggisnet undir almennu sjóðunum, en við hljótum að stefna að því að þeirri mismunun sem í þessu birtist verði eytt og líka að hinu að starfsævin dugi fólki til að byggja upp lífeyrissjóð þannig að það þurfi ekki að treysta á almannatryggingakerfið að fullri starfsævi lokinni.

Allir þeir sem hafa átt þess kost að taka þátt í vinnumarkaði og leggja til hliðar í lífeyrissjóð yfir heila starfsævi ættu að vera komnir með lífeyrisréttindi sem duga fyrir eðlilegri framfærslu þannig að þeir þurfi ekki að treysta á almannatryggingakerfið.

Ég hef bent á tvennt. Við erum hér í upphafi umræðunnar; og ég bendi á þetta með almennu sjóðina og hina opinberu sem er mjög mikilvægt að hafa í huga. Ég hef líka vakið athygli á því að það var mikil eignabóla í upphafi viðmiðunartímabilsins. Mig langar þá að koma aðeins inn á það að ég tel, eins og hv. þm. Pétur Blöndal vék að í andsvari rétt í þessu, að það skipti máli hvernig við dreifum áhættunni.

Höfum í huga að við erum með í þessu kerfi um 2 þús. milljarða. Veltum því fyrir okkur hvort það sé ábyggilegt að við munum geta fundið ávöxtunarleiðir fyrir alla þá fjármuni hér heima fyrir, augljóslega væri rangt að gera það, að reyna það. Þess vegna höfum við haft opnar heimildir fyrir því að kaupa erlend verðbréf. Ég tel að í ljósi þess hve staða sjóðanna er orðin sterk og eignir þeirra orðnar miklar ættum við að huga að því að auka möguleika sjóðanna til að fjárfesta í erlendum verðbréfum. Það mundi dreifa áhættunni betur en með því að draga úr þeim möguleikum. En gjaldeyrishöftin sem eru við lýði í dag eru einmitt stórkostlega skaðleg í því tilliti.

Í almennri umræðu er talsvert talað um verðtrygginguna, ekki síst í tengslum við skuldamál heimilanna og skaðsemi verðtryggingar fyrir heimilin í landinu. Í þeirri umræðu er algerlega nauðsynlegt að taka með í reikninginn að heimilin eiga líka verðtryggð réttindi. Þau réttindi eru einmitt í þeim lífeyrissjóðum sem við ræðum hér í dag.

Þegar fólk mælir fyrir því í dag að við eigum að stefna að algjöru afnámi verðtryggingarinnar á Íslandi er líka nauðsynlegt að í sömu umræðu sé fjallað um það hvað eigi þá að verða með hin verðtryggðu lífeyrisréttindi sem eru til staðar í dag. Er verið að mælast til þess að verðtrygging lífeyrisréttinda falli niður um leið? Í grunninn eru þau verðtryggð. Í grunninn eru þau það. (Gripið fram í.) Hjá ríkinu gildir þessi regla. Það verður að vera alveg skýrt hjá þeim sem mæla fyrir afnámi verðtryggingarinnar hvort lífeyrisréttindin eigi að falla undir þá viðmiðunarreglu.

Hver er annars langstærsti eigandinn að verðtryggðum skuldum heimilanna? Eru það ekki lífeyrissjóðirnir? Hver er það sem kaupir meginþorrann af verðtryggðum skuldabréfum Íbúðalánasjóðs? Eru það ekki lífeyrissjóðirnir? Þeir eru að kaupa verðtryggð skuldabréf Íbúðalánasjóðs. Hvers vegna? Vegna þess að með því geta þeir best uppfyllt kröfuna sem á þeim hvílir um að verðtryggja eignir sínar til langs tíma og standa undir ávöxtunarkröfunni. Þetta er allt saman hluti af sömu keðjunni. Það er ekki hægt að taka einn hlekk úr keðjunni og halda að hún standi jafnsterk eftir.

Ég kalla eftir því í umræðu um verðtrygginguna að menn tali um þennan þátt hennar af ábyrgð og í þessu heildarsamhengi hlutanna.

Síðan aðeins aftur um það högg sem lífeyrissjóðirnir hafa orðið fyrir. Það er auðvitað augljóst að það var óumflýjanlegt að þeir lentu í einhverju höggi. Það er augljóst þegar hlutabréfamarkaðurinn hrynur til grunna á Íslandi. En var höggið óeðlilega mikið? Það eru vísbendingar í skýrslunni um að menn hafi ekki farið nægjanlega varlega. Við hljótum að taka því mjög alvarlega hér á þinginu og spyrja okkur hvort þörf sé á að setja strangari reglur eða auka enn frekar eftirlit til að fyrirbyggja að slíkt geti endurtekið sig í framtíðinni.

Í skýrslunni er hvatt til þess að lífeyrissjóðalögin og kerfið verði endurskoðað í heild sinni. Það er fjallað um það að fjárfestingarheimildir hafi verið óskýrar og ófullkomin ákvæði um áhættu. Kallað er eftir því að tryggingafræðilega matið verði endurskoðað og það geti orðið til þess að tryggja meiri stöðugleika í lífeyrisréttindum. Fjallað er um mikilvægi þess að lágmarka áhrif sveiflna á markaði og afkomu lífeyrisþega eða sjóðsfélaga. Það er líka sagt að endurskoða þurfi hlutverk og eftirlitsskyldu endurskoðenda lífeyrissjóðanna, að Fjármálaeftirlitið eigi að skipa ytri endurskoðendur. Talað er um að eftirlit Fjármálaeftirlitsins hafi verið of veikburða á sínum tíma. Kallað er eftir því að úrskurðir séu birtir opinberlega o.s.frv. Um þetta allt má lesa í skýrslunni sjálfri. Þar er sem sagt fjöldi ábendinga sem við hljótum að taka hér til umræðu.

Við höfum séð viðbrögð frá lífeyrissjóðunum fram til þessa, mörgum hverjum. Annars vegar er bent á að menn hafi nú þegar brugðist við sumum af þessum ábendingum og sett sér strangari reglur o.s.frv. Ég hygg hins vegar að það sé fjölmargt fleira í þessari skýrslu sem ástæða er fyrir lífeyrissjóðina til að bregðast við. Það er líka sjálfsagt að við tökum umræðu um það hvort áfram er kallað eftir því að aðilar vinnumarkaðarins taki ábyrgð á uppbyggingu lífeyrisréttinda og að við lítum áfram á uppbyggingu lífeyrisréttinda á hinum almenna markaði sem hluta af kjaraviðræðum. Það er sjálfsagt að ræða það. Ég tel að almennt séð hafi það gefist vel.

Með því að leggja til, eins og sumir hafa verið að mæla fyrir, að stjórnun lífeyrissjóðanna færist alfarið yfir til sjóðfélaganna værum við að rjúfa þessa áratugalöngu hefð og leggja hana alfarið til hliðar. Þá er eðlilegt, eins og fram hefur komið hjá sumum aðilum vinnumarkaðarins, að þeir líti bara á sérhvert framlag inn í lífeyrissjóðina sem skatt í framtíðinni — líti á það sem skatt. Við getum kannski fengið einhverja vísbendingu um það í þessari skýrslu hvort það er líklegt til þess að gefa betri niðurstöðu að fela sjóðfélögunum alfarið að sjá um sjóðina, slíkir sjóðir eru til. Verkfræðingar voru til dæmis með sinn eigin sjóð. Meira eða minna á þeirri forsendu; gekk þeim sjóði betur? Samkvæmt skýrslunni virðist honum hafa gengið verr. Ég vil ekki draga of almennar ályktanir af þessu eina dæmi, en að minnsta kosti eru engar sérstakar vísbendingar um að lífeyrissjóðunum mundi farnast eitthvað mikið betur samkvæmt því fyrirkomulagi.

Þannig að spurningin sem við stöndum kannski fyrst og fremst frammi fyrir í þessu efni er þessi: Viljum við að uppbygging lífeyrisréttinda verði áfram hluti af kjaraviðræðum, það hvernig þessu verður fyrir komið? Ég tel að það hafi gefist vel. Ég tel enga sérstaka ástæðu til að gera eina allsherjaruppstokkun á því í tilefni af útkomu þessarar skýrslu eða því hvernig til hefur tekist í lífeyrissjóðakerfinu undanfarin ár. Ég tel hins vegar, og vil að það komi skýrt fram af því nú fer tími minn að renna út, að í umræddri skýrslu séu fjölmargar mjög alvarlegar ábendingar sem við verðum að taka til umræðu og leiða til lykta hér á þinginu. En við skulum ekki ana að niðurstöðum og átta okkur á því að við erum hér í upphafi umræðu sem skiptir miklu máli. Undir eru framtíðarlífeyrisréttindi sem við stefnum að því að jafna þannig að þeir sem eru í almennu sjóðunum verði ekki í þeirri stöðu, þegar áfall dynur yfir, að þurfa bæði að lenda í skerðingu á eigin réttindum og á sama tíma að þurfa að (Forseti hringir.) taka á sig auknar álögur til að viðhalda óskertum réttindum þeirra sem eru í opinberu sjóðunum. Það er óþolandi ójafnræði.