Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 15:48:11 (5402)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:48]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég ætla að verja lífeyrissjóðakerfið með kjafti og klóm svo því sé til haga haldið. Hvers vegna vil ég gera það? (Gripið fram í.) Það þarf að verja kerfið vegna þess að sporin hræða. Við sáum það þegar Alþingi tók upp á því að einkavæða bankana, þegar rætt var um fé án hirðis í sparisjóðunum — allar þær góðu ráðstafanir leiddu þessar stofnanir og nánast íslenska ríkið beinlínis í þrot. (Gripið fram í.) Svo einfalt er það. Þetta kerfi lifði af og ég ætla að verja það og ég treysti því að stór meiri hluti þingmanna muni gera það.

Síðan vil ég nefna, frú forseti, að ég hef verið hér á þingi núna í mánuð og ég tek eftir því að sumir þingmenn gera það mjög ítrekað að trufla ræðumenn í pontu með frammíköllum og öðru slíku. Ég, eins og fleiri, þarf að einbeita mér þegar ég tala og mér finnst svolítið ankannalegt undir fundarsköpum sem banna slíkt að það skuli gegndarlaust leyft í þingsal að menn kalli fram í, jafnvel úr hliðarsal.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að taka eftir og virða ræðutíma ræðumanns.)

Takk fyrir það. En standa sjóðirnir undir því sem var lofað? Já, ég fór yfir það áðan. Þeir juku mikið lífeyrisréttindi eins og hæstv. innanríkisráðherra lýsti þegar froðan var sem mest, svo hvarf froðan en straumurinn hefur verið jafn upp á við og þeim hefur tekist að halda lífeyrisréttindunum þannig að þau hafa hækkað meira en laun á sama tíma. Ég held að ég hafi svarað þessu.

Aðeins um eldri sjóðfélagana, við öxlum ábyrgð gagnvart þeim, einfaldlega vegna þess að þeir sem borguðu í sjóðina á óðaverðbólgutímanum, og það er ekki langt síðan það var, fengu ekkert fyrir það sem þeir greiddu inn vegna þess að verðbólgan át það upp. Það er verið að reyna að verja það og við gerum það með því að taka á því vandamáli sameiginlega innan lífeyrissjóðanna.