Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 15:50:18 (5403)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þingmaður hafi misskilið spurningu mína. Ég var ekki að spyrja um hvort þingmaðurinn vildi verja lífeyrissjóðakerfið. Ég spurði hvort hann vildi verja það kerfi sem verið hefur á stjórnun lífeyrissjóðanna. Það kann að vera að þetta hafi komið öfugt út úr mér en ég ætlaði að spyrja um það, þ.e. hvernig þessar stjórnir eru skipaðar, hvernig þær eru kosnar, hvernig þær starfa og um tengslin milli aðila sem fjárfesta og sýsla með þessa aura.

Nú hefur hv. þingmaður staðfest að lífeyrissjóðirnir geti vel staðið undir þessu 479 milljarða kr. tapi. Ég skil þingmanninn þannig að þeir geti það. Þá velti ég því upp hvort það gæti ekki verið gott fyrir lífeyrissjóðina til framtíðar litið, í ljósi þess að þeir ráða vel við svona geysilega mikið tap, að leiðrétta lán heimilanna, og hvort þingmaðurinn geti verið mér sammála um að þeir hljóti að geta staðið undir 50–80 milljarða kr. leiðréttingu á lánum heimilanna. Geta þeir það ekki fyrst staða þeirra er svona góð? Ég velti fyrir mér hvers vegna þarf að skerða lífeyri aldraðra og þeirra sem fá úr þessum sjóðum svo mikið að stjórnir lífeyrissjóðanna fara af hjörunum þegar talað er um að leiðrétta lánin. Svo koma þingmenn upp sem þekkja innviði lífeyrissjóðanna vel og segja að þeir þoli vel 479 milljarða kr. tap. Samt er ekki hægt að koma heimilunum til hjálpar á nokkurn hátt.

Það kann vel að vera að þetta sé einhvers konar bókhaldsfræði sem hv. þingmaður heldur hér á lofti, en hins vegar er búið að staðfesta að þessir sjóðir ráða við tapið vegna þess að þeir eru svo vel reknir. Það hlýtur að vera hægt að reka þá það vel að þeir geti komið heimilunum til hjálpar. Það er fólkið sem borgar í lífeyrissjóðina og mun borga til framtíðar. En auðvitað vitum við það, frú forseti, að Alþýðusamband Íslands hefur einna harðast barist gegn því að almenn leiðrétting á lánum heimilanna nái fram að ganga. Það er áhyggjuefni þegar samtök sem eiga að standa fyrir verkalýðinn og verja hagsmuni hans skuli beita sér með þessum hætti. Nú koma þeir sem best þekkja til og segja að lífeyrissjóðirnir geti borið hundruð milljarða króna tap án þess að depla auga.