Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 15:58:11 (5407)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þarf engan kjark til að gera það sem réttmætt er og fólki finnst vera réttlátt. Ef við ætlum að jafna lífeyriskjörin og jafna þau upp á við þarf engan kjark til þess. Ef við ætlum hins vegar að hafa réttindi af fólki og jafna niður á við, réttindi af fólki sem árum og áratugum saman hefur setið við samningaborð og setið frammi fyrir þeim valkostum hvort það eigi að sætta sig við lakari laun en betri réttindi — þetta er veruleikinn — ef við ætlum að skerða kjörin hjá því fólki má segja að það kosti einhvers konar kjark til þess.

Við skulum muna að við erum ekki að tala um þingmenn og ráðherra eins og gjarnan er gert þegar menn vilja á einhvern hátt koma óorði á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Við erum að tala um strætisvagnabílstjóra, sjúkraliða, slökkviliðsmenn, hjúkrunarfræðinga, kennara, fólkið sem starfar hjá hinu opinbera. Það að slá því sífellt fram að þetta starfsfólk fái lífeyrisréttindi frá skattgreiðendum er svo sem alveg rétt en á sama hátt fær það úr vasa skattborgarans þegar það fær greidd laun sín. Er það eitthvað slæmt? Er það slæmt? Ég bara spyr. Þetta eru tilraunir til að reka fleyg í raðir launafólks og það finnst mér rangt en því miður hefur borið á þessu á undanförnum árum. Við eigum að ráðast sameiginlega í það verk að jafna lífeyriskjörin í landinu. Mér finnst grundvallaratriði að gera það. Við eigum að reyna að jafna þau hjá almennu launafólki upp á við en ekki niður á við. Það er aðilum á vinnumarkaði sem stýra stóru lífeyrissjóðunum í sjálfsvald sett að búa til samsvarandi kerfi og gert var á opinbera markaðnum í ársbyrjun 1997, að búa til sjóð með breytilegu iðgjaldi. Það er ekkert (Forseti hringir.) sem stendur í vegi fyrir því að það sé gert.