Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 16:12:54 (5410)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu um lífeyrissjóðina, starfsemi þeirra og fjárfestingar. Ég verð að byrja á að segja að sú skýrsla er mjög góð. Hún er virkilega góð og tekur á mörgum þáttum sem þarf að ræða og þyrfti að ræða miklu meira. Sá ljóður er þó á skýrslunni að lífeyrissjóðirnir greiddu fyrir hana sjálfir og er alltaf hægt að setja spurningarmerki við slíkt.

Það er tvennt sem ég hef út á skýrsluna að setja. Það er hve þeir leggja mikla áherslu á að löggjafinn hafi brugðist í málinu og svo hins vegar að þeir taka ekki á boðsferðum og öðru slíku, tengslum og venslum stjórnarmanna við atvinnulífið.

Varðandi löggjafann þá setti Alþingi rammann. Einn hv. þingmaður ásakaði mig um að hafa valdið hruninu, þ.e. hv. þm. Lilja Mósesdóttir, ég hefði sem sagt búið til hrunið með því að leyfa lífeyrissjóðunum að fjárfesta upp á 60%. Því er til að svara að þeir nýttu þetta aldrei að neinu marki. Ég var formaður nefndarinnar en öll nefndin stóð að baki þeirri breytingu auk þess sem allt Alþingi samþykkti breytinguna, frú forseti, einróma og meira að segja stjórnarandstaðan þá. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, núverandi hæstv. ráðherra á ýmsum sviðum, fagnaði þessu. Ég fór að hugleiða þessar ásakanir og leitaði að sjálfsögðu ábyrgðar hjá sjálfum mér og kannaði hvort ég bæri á þessu ábyrgð. Vissulega má segja að ég hafi gert það ef við gefum okkur það að stjórnarmenn lífeyrissjóðanna séu ómálga börn. En auðvitað taka stjórnirnar ákvörðun um fjárfestingarnar hverju sinni en ekki löggjafinn. Alþingi getur sett ramma, mörk og annað slíkt og hefur gert það alla tíð, tiltölulega þröng mörk og þröngan ramma. En hvernig þeir fylla upp í rammann er svo þeirra mál. Það stendur í lögunum, í fjárfestingarstefnunni, að lífeyrissjóðirnir eða stjórnirnar skuli fjárfesta með arðsemi og öryggi, frú forseti, í huga. Fjárfestingin átti því bæði að vera arðsöm en líka örugg, og það rekst mjög oft á eins og kunnugt er.

Eftir að hv. þm. Lilja Mósesdóttir kenndi mér um þetta allt saman hugleiddi ég það töluvert mikið og eftir að hafa hugleitt ábyrgð mína, sem ég gerði virkilega, komst ég að þeirri niðurstöðu að ekki væri skynsamlegt fyrir mig að axla ábyrgð með því að hætta, enda hafa nokkuð margir hringt í mig og margir á Facebook líka hafa skorað á mig að halda áfram og kannski eru bestu rökin þau að nauðsynlegt sé að rödd mín heyrist á þingi. En ég hugleiddi þetta.

Þar sem sú nefnd sem fór í þessa skýrslugerð hafði ekki nægilegar heimildir til rannsókna — fyrir utan það að hún tók eiginlega mjög stuttan tíma, sem er líka slæmt — er ég hlynntur því að Alþingi skipi rannsóknarnefnd sem noti skýrsluna, byggi á henni en fari dýpra og lengra aftur í tímann vegna þess að það sem var að gerast í hruninu hafði gerst löngu áður. Til dæmis þegar lífeyrissjóðirnir keyptu í Kaupþingi o.s.frv., löngu, löngu áður.

Íslensku lífeyrissjóðirnir eru mjög sterkir eins og fram kemur í skýrslunni en urðu fyrir miklu höggi, eins og ég gat um fyrr í dag, þar sem þeir eru mældir í krónum en erlendu eignirnar eru mældar í evrum sem tvöfaldaðist í verði bara vegna þess. Mér finnst mjög mikilvægt að við lærum af hruninu og þessari skýrslu.

Lífeyrissjóðirnir eru uppspretta fjár og það gleymist oft. Það er alltaf umræða um lánveitendur þetta og lánveitendur hitt. Það er eins og það sé bara ein hlið á medalíunni, að peningarnir komi bara einhvers staðar frá og aðeins veittir í lán. Ég vil og ég krefst þess að þeir sem tala um verðtryggingu, lánveitingar, niðurfellingar og annað slíkt af lánum geri sér grein fyrir hvar uppspretta fjárins er. Uppsprettan er hjá lífeyrissjóðunum. Þegar lífeyrissjóðirnir byrjuðu borguðu þeir engan lífeyri fyrstu árin. Það voru bara iðgjöld inn og útlán. Svo hefur hægt á þessu. Lífeyririnn er kominn upp í 70 milljarða, iðgjöldin eru sirka 80–90 milljarðar og bilið er alltaf að minnka þarna á milli þannig að lífeyrissjóðirnir verða bráðum eftir svona fimm, tíu eða fimmtán ár hættir að vera uppspretta fjár. Þeir munu ekki lengur veita eins mikið út í atvinnulífið og þeir hafa gert hingað til. Það er mjög alvarlegt.

Þá er spurningin með hinn frjálsa sparnað sem er mjög veikburða. Fjölskyldurnar eiga um 500–600 milljarða sem er þá ekki nema þriðjungurinn af fé lífeyrissjóðanna. Það er mjög veik uppspretta fjár. Ég held að þeir sem eru að ráðast á fjármagnið með því að vilja skerða verðtryggingu, vilja skerða lán og allt svoleiðis — sem kemur alltaf niður á einhverjum, það kemur niður á fjármagnseigandanum, þ.e. sparandanum — þurfa að átta sig á því að svona aðgerðir geta valdið því að eftir fimm eða tíu ár fái börnin okkar hvergi lán. Ég þekki þá stöðu. Þegar ég kom frá námi var hvergi nokkurs staðar lán að hafa, hvergi.

Til hvers voru lífeyrissjóðir stofnaðir? Þeir voru ekki stofnaðir til að borga lífeyri, það er dálítið merkilegt. Þeir voru stofnanir nákvæmlega eins og Búnaðarbankinn, Landsbankinn, Útvegsbankinn, Alþýðubankinn o.fl., þeir voru stofnaðir til að skaffa lán. Í lánsfjárþurrðinni sem þá var voru margir verkalýðsforingjar, t.d. Eðvarð Sigurðsson, ég man eftir að hann sagði: Verkamaðurinn þarf líka lán, við skulum stofna lífeyrissjóði til þess. Það var ekki fyrr en löngu seinna að menn fóru að hugleiða að lífeyrissjóðir ættu að borga einhvern lífeyri. Þannig var það.

Ég ætla að nota síðustu mínúturnar til að fara í gegnum þær hættur sem steðja að lífeyrissjóðunum og ekki eru nefndar í skýrslunni. Þær eru verulegar. Það er í fyrsta lagi hættan af 3,5% vaxtaviðmiðinu. Af hverju í ósköpunum er 3,5% valið? Það var valið fyrir mörgum árum, áratugum, þegar verðtrygging var tekin upp, þ.e. verðtrygging á lífeyri því að hann er búinn að vera verðtryggður alla tíð. Þá var ákveðið að til að jafna stöðu þeirra sem voru ungir, nýbyrjaðir í sjóðunum, og hinna sem voru gamlir og voru að fara á lífeyri þyrfti að reikna sjóðina með ávöxtunarkröfu eða ávöxtunarviðmiði sem væri nokkurn veginn það meðaltal sem sjóðirnir næðu fram. Ég man eftir að ég tók þátt í því að móta þessa stefnu um 3,5% á sjóði sem voru með lífeyri verðtryggðan miðað við neysluvísitölu og svo hins vegar 2% á sjóði með lífeyri sem var verðtryggður miðað við laun. Þetta var mjög meðvituð ákvörðun.

Nú er það að gerast að lífeyrissjóðirnir fá ekki fóður með þessari ávöxtun og þá gerast mjög alvarlegir hlutir. Þá þarf að skerða lífeyri allsvakalega. Fyrir hvert 1% þarf að skerða lífeyri um tugi prósentna eða hækka iðgjaldið úr 12% upp í kannski 18% eða 20% sem er þá borgað af fyrirtækjunum eða launþegunum. Það skiptir ekki máli því að það sem fyrirtækin borga fyrir manninn í lífeyrissjóð fær maðurinn ekki í laun. Svo má hækka ellilífeyrisaldurinn. Og það held ég að menn eigi að skoða á hinu háa Alþingi, að hækka ellilífeyrisaldurinn allverulega því að fólk er miklu sprækara í dag en það var fyrir 30, 40 árum.

Hin hættan sem steðjar að lífeyrissjóðunum er góðmennska hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún hækkaði lífeyri úr 150 í 180 þús. kr. og skerti krónu á móti krónu sem gerir það að verkum, eins og ég nefndi fyrr í dag, að maður með 70 þús. kr. frá lífeyrissjóði fær ekkert sérstaklega fyrir það. Hann er bara nákvæmlega eins settur og maður sem fær ekki neitt. Þetta mun letja menn allverulega til að borga í lífeyrissjóði, fyrir utan þá skýrslu sem hér hefur komið fram sem sýnir ráðstöfun á þessu fé sem ekki var beint góð, alveg skelfileg. Það gæti komið upp andúð gegn því að borga í lífeyrissjóðina ef þetta er ekki lagað hið snarasta, að menn fái eitthvað fyrir að borga í lífeyrissjóðina.

Ég held að skýrslan eigi að leiða til þess að hér fari fram góð og mikil umræða um lífeyrissjóðina, um þær hættur sem steðja að þeim. Þær tvær hættur sem ég nefndi, vaxtaviðmiðin 3,5% sem fer niður í jafnvel 2% eða 1%, það eru engin tækifæri að hafa á Íslandi og gjaldeyrishöftin banna mönnum að fara til útlanda, og svo hins vegar þetta samspil Tryggingastofnunar og lífeyrissjóðanna sem gerir ekki mjög ákjósanlegt fyrir fólk að borga í lífeyrissjóði.