Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 16:29:39 (5414)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í skýrslunni kemur fram, og ég hef rætt það áður, að Alþingi víkkaði heimildirnar, ég tel að það hafi verið mistök vegna þess að stjórnirnar voru ekki nógu hæfar. Það er allt í lagi að víkka rammann ef þeir sem vinna innan rammans hafa vit á því sem þeir eru að gera, þá er allt í lagi að víkka rammann. Ég man eftir því að hann var víkkaður vegna þess að erlendu hlutabréfin hækkuðu svo mikið og innlendu sömuleiðis að menn nálguðust rammann af sjálfu sér bara vegna þess að hlutabréfin hækkuðu svo mikið án þess að menn keyptu neitt. Þetta voru ein rökin sem við heyrðum.

Í sjálfu sér má segja að ef þeir sem eru að höndla með peningana hafa vit á því þá tel ég að þeir ættu að hafa meira vit á því en nefndir þingsins eða þingmenn sem setja rammann.

Varðandi mistök hjá stjórnunum sjálfum held ég að það sé ekki spurning að skýrslan segir að mistök hafi orðið. Menn tapa ekki svona þvílíkum peningum í alls konar gerninga sem þeir fóru út í án þess að hafa gert mistök, ég get ekki séð það. Menn eiga að viðurkenna mistök nákvæmlega eins og ég viðurkenni mistök á því að eiga þátt í því sem einn af 63 að hafa víkkað þessi mörk. Það voru mistök. En að sjálfsögðu ber gerandinn sem vinnur innan markanna miklu, miklu meiri ábyrgð á því sem hann er að gera heldur en sá sem setur mörkin. Það er bara fráleit hugsun að fara að kenna stjórnmálamönnum um það þegar menn keyptu bréf í einhverjum vafasömum sjóðum sem fóru svo á hausinn.