Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 16:54:37 (5421)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef farið í gegnum þetta áður. Ég er ekki lögfræðimenntaður en lögmenn segja mér að sérlög gangi framar almennum lögum. Við erum með almenn lög um lífeyrissjóði. Síðan erum við með sérlög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þar stendur í 4. málslið 13. gr. að stjórninni beri að hækka framlag ríkisins. Þetta eru sérlög, algjörlega óháð því sem gerist í almennu lögunum, og þetta gilti þangað til í desember sl. þegar ríkisstjórnin kom með breytingartillögu þar sem vísað er í almennu lögin.

Af hverju var það gert? Vegna þess að þetta gilti ekki áður. Þess vegna getur hæstv. innanríkisráðherra, sem var formaður stjórnarinnar á þessum tíma, ekki vísað í almenn lög til að hlífa sér við gagnrýni á að stjórnin hafi ekki farið að sérlögunum um lífeyrissjóðinn.

Svo væri náttúrlega áhugavert að ræða við hæstv. ráðherra um tap Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins — sem lendir ekki á sjóðfélögunum heldur á skattgreiðendum í landinu, tap upp á 100 milljarða. Hann segir að hann beri enga ábyrgð á þessu af því að hann lifi í kapítalísku kerfi. Hvernig í ósköpunum datt honum í hug að bjóða sig fram til stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ef hann treysti sér ekki til að vinna í því umhverfi sem sá sjóður vann í sem og öll fyrirtæki og allt efnahagslíf á Íslandi?