Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 17:19:50 (5425)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[17:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum stöðu lífeyrissjóðanna í landinu í ljósi þeirrar úttektar sem lífeyrissjóðirnir sjálfir hafa látið gera um fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegt umhverfi sjóðanna í aðdraganda hrunsins 2008. Það að heildartap sjóðanna við hrunið hafi verið um 500 milljarðar undirstrikar að fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna var orðin allt of áhættusækin og að bankarnir réðu oft fjárfestingarstefnu sjóðanna og krosseignatengsl banka og fyrirtækja á hlutabréfamarkaði voru orðin of mikil.

Þrátt fyrir skyldur stjórnenda lífeyrissjóðanna um að móta sér ábyrga fjárfestingarstefnu með tilliti til ávöxtunar og áhættu virðast ekki hafa kviknað þau aðvörunarljós sem nægðu til að draga úr meðvirkni og áhættusækni í ljósi mikillar samþjöppunar og krosseignatengsla á hlutabréfamarkaði. Því fór sem fór þótt vissulega megi segja stjórnendum sjóðanna til málsbóta að sú krafa var hjá öllu samfélaginu að sjóðirnir skiluðu sem hæstri ávöxtun til sjóðfélaga sem eftir á að hyggja var ekki raunhæft, þ.e. að gera þá kröfu til langs tíma, því að lífeyrissparnaður er vissulega langtímasparnaður.

Ég tel að allir sem koma að málum lífeyrissjóðanna og hafa komið að þeim verði að viðurkenna að ákveðin mistök voru gerð, bæði það hversu hátt hámarkshlutfallið af eign sjóðanna var sem heimilt var að fjárfesta í skráðum hlutabréfum á markaði og að bullandi meðvirkni var orðin í stjórn lífeyrissjóðanna sem og í öllu fjármálakerfinu í landinu.

Ávöxtunarkrafan var orðin svo mikil að hún ein og sér réð of mikið ferðinni á kostnað varúðarnálgunar í ljósi hagsmuna sjóðfélaga til lengri tíma litið. Fram hefur komið að almennu lífeyrissjóðirnir verða ekki farnir að ná fullu jafnvægi í útgreiðslu til sjóðfélaga sinna fyrr en um árið 2023. Þær spurningar hafa vaknað hvort eðlilegt sé að stjórnir almennu sjóðanna séu samansettar af atvinnurekendum og fulltrúum sjóðfélaga sem kosnir eru af stéttarfélögum.

Sjóðirnir eru kjarasamningsbundnir sem skýrir vissulega aðkomu atvinnurekenda að þeim, þeir byggjast á langri baráttu verkalýðshreyfingarinnar til lífeyrisréttar og urðu til við gerð kjarasamninga milli vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar í kringum árið 1970. Fyrstu tíu árin má segja að sjóðsöfnunin hafi brunnið upp í miklu verðbólgubáli og það var ekki fyrr en upp úr 1980 að sjóðsöfnun hófst fyrir alvöru þegar verðtryggingu var komið á, svo að hún er ekki alvond eins og sumir vilja meina, heldur hefur hún skipt miklu máli í uppbyggingu sjóðanna í þágu sjóðfélaga.

Tap almennu lífeyrissjóðanna bitnar beint á útgreiðslum til sjóðfélaga en tap opinberu sjóðanna kemur ekki með sama hætti niður sem skertur lífeyri heldur dreifist tapið sem aukin skattbyrði á alla landsmenn til að standa undir auknum skuldbindingum opinberu sjóðanna. Það getur ekki talist réttlátt að ríkið bæti hluta landsmanna tap lífeyrissjóðanna í hruninu en sjóðfélagar almennu sjóðanna taki á sig skerðingu til framtíðar. Það er því löngu orðið tímabært að jafna lífeyrisréttindi allra landsmanna og stokka upp spilin að nýju í ljósi þessara atburða og fara úr þeim skotgröfum að togast á um það út af hverju lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna séu betri og ríkistryggð, ólíkt því sem er á almenna markaðnum þótt vissulega verði að taka inn í þá umræðu að almannatryggingar tryggja öllum lífeyrisþegum lágmarksframfærslugrunn sem er í dag brúttó um 203 þús. kr. og 174 þús. kr. eftir skatta. Þau rök sem áttu við hér áður fyrr um að eðlilegt væri að opinberir starfsmenn hefðu betri lífeyrisrétt en launþegar á almenna markaðnum þar sem það endurspeglaði lægri laun hjá opinberum starfsmönnum — sá samanburður hefur eflaust átt rétt á sér á árum áður en sú tíð er löngu liðin. Það verður því að tryggja að allur vinnumarkaðurinn búi við samræmt lífeyriskerfi sem jafnframt sé sjálfbært og uppfylli þær þarfir sem samstaða er um að skilgreina sem rétt allra landsmanna til lífeyristryggingar. Mikilvægt er að sú vinna sem hafin er af stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum opinberu sjóðanna um jöfnun lífeyrisréttinda vinnist hratt og vel. Ég tel að við núverandi aðstæður eigi að skoða í fullri alvöru hvort hægt sé að stefna að sameiginlegum sjálfbærum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn.

Það sem mér finnst að megi gagnrýna stjórnir lífeyrissjóðanna í dag fyrir er að sjóðirnir komi ekki af meira afli og krafti inn í uppbyggingu landsins eftir hrunið. Það hljóta að vera sameiginlegir hagsmunir sjóðfélaga að framkvæmdir komist fyrr í gang, að atvinna eflist, störfum fjölgi og að þar með aukist inngreiðsla iðgjalda inn í sjóðina. Lífeyrissjóðirnir bera þá samfélagslegu ábyrgð að þeir horfi líka til þess að nýta fjárfestingargetu sína til öflugrar þátttöku við endurreisn landsins með ríki og sveitarfélögum.

Lífeyrissjóðir landsmanna gegna mikilvægu hlutverki í efnahag og velferð landsmanna og því skiptir miklu að allri lagaumgjörð starfseminnar sé búinn þannig rammi að þeir sem greiði í sjóðina geti treyst því að lífeyrir þeirra sé tryggður við starfslok. Þótt lífeyrissjóðirnir hafi vissulega tapað stórt í hruninu megum við ekki gleyma því að þeir stóðu af sér hrunið og eru að byggja sig hratt og örugglega upp að nýju. Það er þjóðinni gífurlega mikilvægt að eiga þann sparnað sem liggur í lífeyrissparnaðinum. Það er alls ekki sjálfgefið og margar þjóðir sem búa ekki við sambærilega sjóðsöfnun sem tryggir þeim lífeyri til elliáranna öfunda okkur af þeim sparnaði. Því skulum við ekki fella neina stóra dóma yfir lífeyrissjóðakerfinu sem slíku, það hefur sannað sig. Það eru mannanna verk sem má gagnrýna og endurskoða í ljósi reynslunnar og það fjármagn sem tapaðist við hrunið var að hluta til froða og engin innstæða fyrir, því miður.

Í ljósi þess hve mikilvægt er að við höldum áfram að byggja upp öflugt lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn tel ég nauðsynlegt að fram fari sjálfstæð og óháð rannsókn á vegum Alþingis á starfsemi lífeyrissjóðanna eins og lagt var til í ályktun Alþingis um skýrslu þingmannanefndar, og einnig að heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sjóðanna fari fram í kjölfarið.

Það að axla ábyrgð þýðir líka að læra af því sem miður fór og það á við um stjórnendur lífeyrissjóða sem og aðra í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu.