Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 17:50:40 (5429)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[17:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alþýðusamband Íslands hafnaði almennri leiðréttingu, alla vega þeim tillögum sem framsóknarmenn settu fram, og sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, minnir mig líka, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, Hagsmunasamtök heimilanna o.fl. hafa sett fram. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvernig tillögur Alþýðusambandsins voru á þessum tíma en þetta veit ég þó og man vegna þeirra viðbragða sem komu fram í fjölmiðlum og á fundum.

Allan þennan tíma hefur okkur greint á um það, ýmsa þingmenn og forustumenn lífeyrissjóðanna og Alþýðusambandsins — og einnig forustumenn Samtaka atvinnulífsins, við skulum halda þeim til haga líka — að það að leiðrétta lánin í dag þurfi að skerða lífeyri þeirra sem fá greitt út úr sjóðunum í dag. Það kann að vera að til þess komi eftir einhver ár að skerða þurfi lífeyri þeirra sem greiða í sjóðina í dag, þ.e. ef ávöxtun sjóðanna verður áfram jafnléleg og hún hefur verið. Okkur greinir hins vegar á um þessa aðferðafræði og þessa túlkun og hefur það meðal annars staðið í vegi fyrir því að hægt hafi verið að fara þessa leið.

Það er ágætt að þetta kom fram varðandi froðuna. Ég hef verið að velta því fyrir mér í dag, eftir að hafa hlustað á nokkra þingmenn tala um froðuna, hvort það mikla tap sem rætt er um hjá fyrirtækjum í einstökum atvinnugreinum, verslun og þjónustu, fjármálageiranum, sé í raun miklu minna, út frá þeim skilningi sem menn leggja í froðupeninginn. Þær 200 milljónir sem voru settar í að kaupa hlutabréf urðu að 20 milljörðum sem töpuðust svo allir. Það er rétt að spyrja eins og hv. þingmaður gerði: Töpuðust 200 milljónir eða töpuðust 20 milljarðar? Þetta er atriði sem væri (Forseti hringir.) gaman að skoða aftur í tímann, túlkun varðandi einstök fyrirtæki.