Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 17:54:58 (5431)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[17:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti Það er rétt að rifja það upp að í fyrstu tillögum sem lagðar voru fram varðandi skuldaleiðréttingu var að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að sá afsláttur sem varð til við flutning á eignasöfnum milli gömlu og nýju bankanna yrði látinn ganga til fólksins. Búið var að sýna fram á að ef það yrði gert mundi það kosta ríkissjóð, og lífeyrissjóðina þá um leið, út af Íbúðalánasjóði, mjög lítið ef nokkuð.

Við lendum síðan í því að bankarnir eru endurreistir með kolvitlausri aðferð, að mati okkar margra, og svigrúmið er látið ganga til kröfuhafa. Málið vandaðist að sjálfsögðu við það, hvernig ætti að leysa úr þessu. Við höfum því bent á að meiri hagsmunir kunni að vera fyrir lífeyrissjóðina og fyrir aðila vinnumarkaðarins að leiðrétta skuldir þeirra heimila sem eiga í vandræðum, eru með bogann spenntan alveg í botn, með ákveðnum kostnaði.

Við höfum líka sagt að ef endurskoða þarf ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, hugsanlega breyta lögum til þess að það sé hægt, sé það þessi virði að fara í þá umræðu. Sú umræða hefur aldrei verið tekin, meðal annars vegna þess að forsvarsmenn þessara stóru aðila hafa verið andsnúnir því að fara í almenna leiðréttingu. Það er alveg sama hvernig hún er útfærð eða hvað hefur verið sett fram, menn eru bara á móti því. Það kann að tengjast umræðunni um verðtryggðu lánin og verðtrygginguna, ég veit það ekki, ég get ekki alveg sett mig inn í hugarheim þeirra sem hafa talað svona hart gegn þessu. Mér hefur fundist það (Forseti hringir.) borðleggjandi fyrir stóra samhengið að leiðrétta þurfi þessar skuldir.