Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 18:34:07 (5441)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir sumt af því sem hv. þingmaður benti á, sérstaklega hugmyndir sem voru uppi um að skattleggja lífeyrissjóðina. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan að mér fyndist að stjórnvöld beittu lífeyrissjóðina ákveðnum þrýstingi um að taka þátt í útboði, að skipta út erlendum eignum eða gjaldeyri fyrir íslenskrar krónur. Mér finnst það vera hálfgert þvingunarúrræði. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að lífeyrisskuldbindingarnar í B-deildinni eru einhvers staðar á milli 350 og 380 milljarðar. Áfallið í A-deildinni er núna komið í 47 milljarða. Þá minni ég bara á það, og það held ég að sé mikilvæg umræða sem við þurfum að taka, og ég fór einmitt yfir það í desember, að við erum í raun og veru að blöffa okkur. Það hefur kannski ekki verið deilt um það í gegnum tíðina að hlutur af launakjörum ríkisstarfsmanna, sem voru kannski í B-deildinni af því að A-deildin var alltaf hugsuð sem gegnumstreymisdeild, eða ætti sem sagt að standa undir sér, væru lífeyrisréttindi. Þá hef ég velt þeirri spurningu upp: Höfum við hér inni og þau sem hafa verið hér, verið að blöffa okkur í gegnum tíðina vegna þess að við höfum í raun og veru verið að fresta launagreiðslum? Ef við þurfum að setja 8 milljarða á raunvirði eða núvirði í lífeyrissjóðina næstu 40 árin til að standa undir skuldbindingum úr B-deildinni, þá þurfum við kannski að fara yfir þá spurningu og ræða hana hvort segja megi að fjárlögin séu ekki rétt hjá okkur, þ.e. að við ættum að greiða inn jöfnum höndum af því að það er verið að fresta hluta af rekstri ríkisins, sem er náttúrlega að stærstum hluta launagreiðslur, inn í framtíðina. Við höfum því kannski ekki rétta mynd af ríkissjóði fyrir hvert ár þó að við höfum alltaf þetta fjall fyrir framan okkur. Ég held því að við þurfum að ræða þetta í þessu samhengi.