Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 18:51:17 (5446)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir góðar og málefnalegar umræður í dag. Ég hef gert þá tillögu að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis taki til umfjöllunar úttektina á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008 og sú nefnd geri þá tillögu að frekari rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna á Íslandi komist hún að þeirri niðurstöðu að þess sé þörf samanber þingsályktunartillögu sem samþykkt var í september 2010.

Umræður sem fram hafa farið hér í dag eru gott innlegg í þá vinnu og mikilvægt er að hv. fjárlaganefnd ræði einnig úttektina og velti fyrir sér hvernig megi í langtímaáætlunum koma fyrir lífeyrisskuldbindingum ríkisins og áhrif á ríkissjóð og hvernig gera megi ráð fyrir lífeyrissjóðunum í hagkerfinu til lengri tíma. Nefndin ræði einnig hvaða afleiðingar það getur haft þegar stórir hópar hefja töku lífeyris en færri greiða til sjóðanna þegar aldurssamsetning þjóðarinnar breytist. Í dag er það þannig að það eru ríflega fimm starfandi að baki hverjum eftirlaunamanni en árið 2050 verða u.þ.b. tveir starfandi að baki hverjum eftirlaunamanni ef að líkum lætur.

Í sjálfu sér er útgangspunkturinn í lífeyrismálum einfaldur, þ.e. að tryggja þeim sem lokið hafa starfsævinni framfærslu til æviloka. Málið flækist hins vegar um leið og kemur að því annars vegar hverjum og hins vegar hvernig eigi að tryggja það. Hér á öldum áður var það hlutverk stórfjölskyldunnar eða byggðarlagsins að tryggja framfærslu þeirra sem einhverra hluta vegna gátu ekki framfleytt sér sjálfir. Það liggur í hlutarins eðli að framkvæmd þess var mjög mismunandi og fór meira eftir vilja og getu þeirra sem réðu en þörfum þeirra sem á þurftu að halda. Okkur hefur sem betur fer tekist að koma þessum málum fyrir í annan og betri farveg.

Meginstefið í vinnunni fram undan er áherslan á samræmingu lífeyriskerfa og jöfnun réttinda. Opinberir starfsmenn þurfa að geta skipt yfir í störf á almennum vinnumarkaði án þess að hafa áhyggjur af lífeyrisréttindum sínum og öfugt. Á því hvernig hlutverkum lífeyrissjóða og almannatrygginga er háttað þarf að skerpa og eins á samspili lífeyrissjóðakerfisins og almannatryggingakerfisins.

Virðulegur forseti. Ásamt áframhaldandi vinnu í nefnd hagsmunaaðila sem sett var á laggirnar í kjölfar stöðugleikasáttmálans árið 2009 og setja á tillögur um framtíðarskipan lífeyrismála mun ég bregðast strax við ábendingum úttektarnefndarinnar og skipa sérfræðihóp til að skoða heildstætt fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða og hvaða skorður setja skuli fjárfestingum sjóðanna.

Að lokum vil ég aftur þakka fyrir góðar og málefnalegar umræður í dag.