Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög

Miðvikudaginn 22. febrúar 2012, kl. 16:06:25 (5616)


140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

508. mál
[16:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er sjaldan talið til framfara þegar menn stíga eitt skref aftur á bak, en undantekningin sannar regluna og það á við í þessu sambandi. Hér vísa ég til þess að með þessu frumvarpi er í raun verið að hverfa aftur fyrir þá ákvörðun sem nú hefur gilt um nokkurra missira skeið um úthlutun á innflutningsheimildum. Að mínu mati er hér verið að stíga skynsamlegt skref. Í raun og veru er verið að lögfesta það fyrirkomulag sem gilti hér um árabil og enn fremur að lögfesta þau hlutlægu skilyrði sem voru alltaf til staðar fyrir ákvörðunum þegar tollkvótum var úthlutað.

Ég tel að í meginatriðum sé verið að stíga jákvætt skref með þessu frumvarpi þó að það sé sannarlega skref aftur á bak, aftur til þess fyrirkomulags sem hafði út af fyrir sig reynst prýðilega árum saman. Eins og kemur fram í athugasemdunum snýst þetta um það hvernig staðið hefur verið að úthlutun á tollkvótum á grundvelli WTO-samkomulagsins sem við Íslendingar erum aðilar að. Auðvitað geta menn deilt heilmikið um það og hvort þessar heimildir eigi að vera rýmri eða þrengri, en niðurstaðan er sú að hér er átt við tollkvótaheimildir sem byggjast á samningum við Alþjóðaviðskiptastofnunina WTO.

Framkvæmdarvaldinu var nokkur vandi á höndum varðandi það hvernig ætti að standa að því að úthluta þessum tollkvótum. Það lá fyrir að eftirspurnin eftir innflutningsheimildunum var meiri en framboðið. Niðurstaðan var sú að menn buðu í tollkvótana. Margir gagnrýndu það. Margir innflytjendur töldu til dæmis eðlilegra að gera það einhvern veginn þannig að menn drægju þetta upp úr hatti, ef svo má segja, til að koma í veg fyrir að lagðir væru yfir höfuð nokkrir tollar á þennan innflutning. Þar með væri sköpuð meiri samkeppni í innflutningi.

Ég tel hins vegar að sú aðferð hefði verið algjörlega ómöguleg og verið tilviljanakennd og í besta falli mjög ógagnsæ. Eftir að hafa hugsað þetta mál mjög oft og tekið þátt í umræðu um það og kosti og galla þessara aðferða, er ég þeirrar skoðunar að við þessar aðstæður hafi það verið skynsamlegt fyrirkomulag, sem gert var á sínum tíma, að hafa eins konar uppboð á þessum tollkvótum sem menn buðu í. Auðvitað má benda á að þessu fylgdi væntanlega kostnaður fyrir innflytjandann, en engu að síður var þetta aðferð við að úthluta tollkvótunum.

Hins vegar var einn hængur á þessu máli um nokkurra ára bil. Ýmsir innflytjendur sem höfðu hagsmuni í þá veruna buðu í þessa tollkvóta og héldu síðan vörunni hjá sér og settu hana ekki á innanlandsmarkað. Það var auðvitað gagnstætt því sem menn höfðu hugsað sér og gert var ráð fyrir í WTO-samkomulaginu, frá árinu 1995 að ég hygg.

Í minni tíð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra breytti ég þessu fyrirkomulagi þannig að þessi útboð fóru í raun fram með sama hætti og önnur útboð, þ.e. menn buðu í tollkvótana og urðu að reiða fram annaðhvort staðgreiðslu eða viðunandi tryggingar, bankatryggingar eða ígildi þeirra. Þetta varð til þess að sæmileg sátt varð um fyrirkomulagið að ég hygg að þessu leyti. Enginn ágreiningur var til dæmis á milli neytenda og framleiðenda innlendrar búvöru. Það urðu ekki þessi pólitísku átök um hvort verið væri að halda uppi búvöruverði með óeðlilegum hætti af þessum ástæðum.

Því miður varð stefnubreyting á. Sú ákvörðun var tekin að miða ekki við magntollana heldur verðtolla. Það var gert á mjög veikum forsendum og á mjög óskynsamlegum tíma, vegna þess að eitt hafði gerst í millitíðinni: gjaldmiðillinn hafði hrunið. Það skapaði í sjálfu sér samkeppnislegt forskot fyrir íslenska framleiðendur, sem betur fer, til að mæta samkeppninni frá útlöndum. Þess vegna var algjörlega tilefnislaust að gera þessar breytingar, að taka upp verðtollafyrirkomulag í staðinn fyrir magntollafyrirkomulag. Afleiðingin var sú að þessar tollkvótavörur urðu í raun og veru dýrari en sömu vörur fluttar inn með þeim heimildum sem almenn tollavernd okkar skapaði. Þetta gerði síðan að verkum að mikil átök urðu að óþörfu um landbúnaðinn og landbúnaðarstefnuna og bjó til að mínu mati mikinn núning í kringum landbúnaðinn og landbúnaðarframleiðsluna, sem var á vissan hátt jarðvegur fyrir þá neikvæðu umræðu sem hófst í kjölfarið seint á síðasta ári þegar menn höfðu uppi mjög stór orð um að ekki væri nægjanlegt framboð af ýmsum landbúnaðarvörum eins og allir muna.

Þess vegna fagna ég því að núna sé verið að stíga þetta skref aftur á bak til þess fyrirkomulags og umhverfis sem gilti í kringum innflutninginn á þessum tollkvótum. Ég held að þetta sé skynsamlegt. Ég tek líka eftir því að ekki er horfið frá því fyrirkomulagi sem ég gerði að umtalsefni, sem fól í sér að til viðbótar við almenn útboð á tollkvótunum þurftu menn að reiða fram staðgreiðslu eða viðeigandi tryggingar. Ég geri því ráð fyrir að það fyrirkomulag haldist.

Í þessu frumvarpi er líka gert ráð fyrir því að þau hlutlægu skilyrði sem í framkvæmdinni hafa hingað til legið til grundvallar fyrir ákvörðunum um innflutningsmagnið séu fremur bundin í lög, og þar með er komið til móts við athugasemdir þær sem umboðsmaður Alþingis hafði gert.

Þetta vekur kannski athygli á því í hversu miklar ógöngur málið rataði eftir þá ákvörðun sem tekin var 2009 eða 2010 um að taka upp verðtollafyrirkomulag í staðinn fyrir magntolla. Sú breyting ein og sér varð tilefni fyrir umboðsmann Alþingis til að bregðast við. Það var sú ákvörðun sem varð til þess að Samtök verslunar og þjónustu kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis yfir þessum reglugerðum og það varð síðan tilefni til að fara ofan í þetta mál. Ég hygg að ef ekki hefði komið til þessara breytinga hefðum við einfaldlega unað við það fyrirkomulag sem var og ekki hefði komið til þeirra átaka sem sannarlega urðu á milli neytenda og framleiðenda, algjörlega að ástæðulausu að mínu mati.

Ég fagna því þessu frumvarpi og við í hv. atvinnuveganefnd munum fara yfir það og gott að vita til þess að til okkar sé komið eitt þingmál og ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kærlega fyrir rausnarskapinn. Ég hygg að nauðsynlegt sé fyrir okkur í nefndinni að skoða þessi mál nokkuð ítarlega með sérfræðingum ráðuneytisins, innflytjendum og íslenskum framleiðendum, til að leita af okkur allan grun um að við séum ekki að gera rétta hluti.

Enn fremur tel ég nauðsynlegt að varpa ljósi á innflutningsþróunina eins og hún hefur verið undanfarin ár sem og tollamyndun, hvaða áhrif til dæmis sú breyting hafði að farið var úr magntollum í verðtolla. Við munum fá tækifæri til að gera það í efnislegri meðhöndlun atvinnuveganefndar. Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að ætla að vinna málsins þurfi að taka ýkja langan tíma, en við þurfum auðvitað að vanda okkur og skila góðu verki.