Endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi

Fimmtudaginn 23. febrúar 2012, kl. 14:18:03 (5723)


140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

329. mál
[14:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir að leggja þetta mál fram og taka það til umræðu í þinginu. Ég vil líka lýsa því yfir að ég undrast það að ekki skuli fleiri þingmenn vera á mælendaskrá eða í salnum til að fjalla um þetta ákaflega mikilvæga mál.

Ég vil jafnframt segja að ég tek að mestu leyti undir allt sem fram kemur í markmiðskafla þeim sem hv. þingmaður leggur fram þess efnis að setja skýrar reglur sem miði að því að koma í veg fyrir uppkaup erlendra aðila sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu, að huga að almennum viðmiðum um landstærð, nýtingu landgæða, horfa til umhverfissjónarmiða og ákvæða um almannarétt og tryggja samræmi í réttarheimildum. Ég set kannski fyrirvara við einn og einn þátt.

Ég vil jafnframt þakka hv. þingmanni fyrir mjög ítarlegra greinargerð, sem er áhugaverð lesning um sögulegt samhengi og réttarstöðu á Íslandi um þessi mál og hvernig þeim er fyrir komið í samanburði við önnur lönd, þó að það sé kannski sumt í greinargerðinni sem ég get ekki skrifað upp á og mundi ekki vilja ganga jafnlangt í regluverkinu.

Þá vil ég benda á að á svipuðum tíma, kannski vegna frumkvæðis hv. þingmanns og kannski vegna þeirra mála sem þá voru uppi í landinu og eru reyndar enn um uppkaup erlendra aðila á landi, lögðum við hv. þm. Ólöf Nordal fram þingsályktunartillögu ásamt 16 öðrum þingmönnum, þ.e. 18 þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, sem er sambærileg þessari að mörgu leyti. Það hefði verið, herra forseti, skynsamlegt að ræða hana um leið og þessa tillögu, í samhengi, til að sýna í raun vilja þingsins til að skoða þessi mál í heild sinni. Ég tek undir með hv. framsögumanni þingsályktunartillögunnar að það sé skýr vilji í þinginu og mikill meiri hluti trúi ég, fyrir því að skoða þessi mál og að fara yfir og skoða regluverkið eins og það er í dag og gera það skýrara og skynsamlegra.

Einnig er rétt að minna á að þetta er álitamál sem hefur oft komið upp á Íslandi, ekki síst í tengslum við EES-samninginn og oft síðan, kannski líka einhvern tíma fyrr á áratugum, en er líka til umfjöllunar í öðrum löndum. Er skemmst að minnast fréttaflutnings af því að hæstiréttur Nýja-Sjálands felldi nýlega þann úrskurð að kínversku fjárfestingarfélagi var bannað að kaupa 16 jarðir í heild sinni sem höfðu orðið gjaldþrota. Nýsjálensku bændasamtökin börðust hatrammlega gegn því og urðu að fara fyrir hæstarétt til að ná fram rétti sínum. Samkvæmt fréttaflutningi var dæmt á þeim nótum að það hefði ekki verið efnahagslegur eða þjóðhagslegur ávinningur fyrir Nýsjálendinga, landið og þjóðina, að selja svo stóran hlut af landi, landi sem ekki má líta á eins og hverja aðra fasteign, til kínversks fjárfestingarfélags og þar með út úr samfélaginu að þeirra mati.

Við hljótum að þurfa að horfa til þessa líka. Hér á landi eftir efnahagshrunið og reyndar fyrir það í bóluhagkerfinu urðu til fjárfestingarfélög, fasteignafélög sem söfnuðu meðal annars jörðum. Lífsval held ég að eitt heiti. Ég held að ég fari rétt með að að minnsta kosti stór hluti þess sé nú fyrir komið einhvers staðar í bankakerfinu, jafnvel hjá Landsbanka Íslands sem er í meirihlutaeigu þjóðarinnar. Ef ég man rétt eru þetta 50 jarðir eða jafnvel fleiri. Ef þær fara í söluferli hjá viðkomandi fjármálastofnun er ákaflega mikilvægt að þær verði ekki seldar í einu lagi heldur í þessum 50 bútum eða að minnsta kosti í skynsamlegum, tilgreindum fjölda til að tryggja að eignirnar fari aftur til þeirra nota sem land á að vera í, þ.e. að framleiða mat ef hægt er í skynsamlegum mæli, gjarnan á stærðarskala fjölskyldubús, og að ekki verði auðsöfnun hvað þetta varðar.

Ég tel að með þeim breytingum sem gerðar voru á kerfinu á Íslandi sem miðuðu að því að færa fjárfestingar á landi í þá átt að farið væri með eins og hverja aðra fasteign, hafi menn villst hvað lengst af leið. Land getur aldrei orðið eins og hver önnur fasteign, við þurfum að fara miklu varlegar með land og landnýtingu en svo, þó að við megum auðvitað ekki heldur ganga um of á eignarréttinn. Í því efni er kannski helstur munur á skoðunum þess sem hér stendur og sumu af því sem kemur fram í greinargerð hv. þingmanns og ég get ekki skrifað upp á.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem ég nefndi sem við hv. þm. Ólöf Nordal unnum að og fengum fjöldann allan af samþingmönnum í flokkum okkar til að vera á, lögðum við nokkra áherslu á að þetta regluverk yrði endurskoðað með hliðsjón af regluverki í öðrum löndum á EES-svæðinu, og bentum jafnframt á þær breytingar sem gerðar hafa verið á íslenskum lögum. Í þeirri þingsályktunartillögu sem við höfum hér til umfjöllunar eru mjög ítarlegar greiningar sem rétt væri að skoða. Við bentum til að mynda á það í þingsályktunartillögu okkar, og það kemur líka fram í tillögunni frá hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, að í Danmörku, sem er sannarlega Evrópusambandsland, gilda allt aðrar og miklu harðari reglur um kaup og sölu á landi og jörðum en hér á landi og gilda jafnt um þá sem eru innan EES-svæðisins sem og utan þess.

Þetta viljum við gjarnan að verði skoðað og það kemur reyndar hér fram líka. Það er mín skoðun að mikilvægt sé að þessar reglur gildi jafnt um þá sem búa innan EES-svæðisins sem og utan þess, eins og er í Danmörku. Svo ég taki dæmi til að útskýra þetta án þess að fara í flókinn lagalegan texta, getur danskur auðmaður komið til Íslands og keypt þess vegna 50 jarðir eða fleiri af því að hann er búsettur á EES-svæðinu, en hann getur ekki keypt tvær jarðir í Danmörku öðruvísi en að búa á annarri og að hin jörðin sé með einhverjum hætt í beinu sambandi við þá fyrri; sé hluti af þeirri jörð, nálægt henni eða sé hluti af búi kaupandans og ráðsmaður eða einhver annar sitji jafnframt jörðina. En þessi maður getur komið hingað til lands og keypt ótilgreindan fjölda jarða án þess að hann búi á nokkurri þeirra. Ég veit til þess að slíkur aðili hefur komið hingað og falast eftir jörð og hann lét þau orð falla að sér þætti sérkennilegt að hann gæti gert þetta af því að hann gæti það ekki í heimalandi sínu. Af þessari sölu varð ekki, trúlega vegna siðferðilegrar afstöðu viðkomandi, honum fannst það einfaldlega rangt, þó svo að hann langaði til að kaupa þennan fallega stað á Íslandi sem til greina kom.

Regluverkið sem við búum við í dag heimilar slíkt og þetta verðum við að endurskoða. Ég tek því undir það sem kemur fram í þingsályktunartillögunni og að mestu leyti þau markmið sem tilgreind eru. Ég hefði líka, eins og ég kom inn á í máli mínu, lagt það til við forseta að hin þingsályktunartillagan sem fjallar um sambærilegt mál, hefði fengið pláss í þinginu, tillögurnar hefðu fengið að fylgjast að. Þá kæmi í raun fram að hér á þingi sé raunverulegur meiri hluti fyrir því að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar og að breyta þeim til skynsamlegri vegar en við þekkjum í dag.