Endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi

Fimmtudaginn 23. febrúar 2012, kl. 14:31:31 (5725)


140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

329. mál
[14:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt innlegg í þetta mál. Við erum bæði áhugamanneskjur um íslenskan landbúnað og það er mér mikið ánægjuefni að menn ræði hér um landbúnaðinn sem er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur og þjóðarbúið allt. Hins vegar verður að skapa landbúnaðinum þau starfsskilyrði að hann geti rekið sig og hann geti haldið áfram að sjá okkur neytendum fyrir góðri vöru, framúrskarandi vöru á ágætisverði.

Hv. þingmaður minntist á að um 50 jarðir væru fastar inni í einhvers konar eignarhaldsfélagi og ekki væri hægt að fá þær keyptar. Hefur þingmaðurinn nánari upplýsingar um það og einhver dæmi um að komið hafi tilboð í þessar jarðir og sala hafi ekki fengist í gegn? Þekkir hv. þingmaður dæmi þess — af því að hvergi er hægt að fá upplýsingar um þetta vegna þess að þetta heyrir ekki undir neinn hér innan húss eða innan framkvæmdarvaldsins — og hvaða leiðir sér hv. þingmaður út úr þessum vanda?

Ég tel að okkur beri að stuðla að því að land okkar, sem er gott landbúnaðarland, nýtist okkur til þess að rækta meira, hugsanlega þannig að við getum farið í meiri ræktun á repju og öðrum jurtum sem geta komið okkur til góða í því mikla verkefni sem það er að reyna að koma hér upp einhvers konar nýjum, orkugjafa.