Eignarhald ríkisins á fyrirtækjum

Mánudaginn 27. febrúar 2012, kl. 15:51:23 (5779)


140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

eignarhald ríkisins á fyrirtækjum.

427. mál
[15:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfar hrunsins eignaðist ríkið eignarhlut í mjög mörgum fyrirtækjum, þar með talið bönkunum þremur, fimm sparisjóðum, tryggingafélagi og dótturfélögum þessara fyrirtækja. Þessar eignir má finna hérlendis og erlendis. Sum þessara fyrirtækja hafa þegar verið seld, einkavædd eða líkt og mörgum stjórnarliðum er tamt að segja „skilað aftur“ til einkaaðila. Má þar nefna einkavæðingu Arion banka, Íslandsbanka, Sjóvár – Almennra, FIH-bankann og Vestia, dótturfélag Landsbankans, en þar undir voru meðal annars Icelandic Group, Vodafone, Advania, áður Skýrr, EJS og HugurAx, Plastprent og Icelandair Group. Tveir sparisjóðir hafa einnig verið settir í söluferli. Allt þetta hefur byggst á jafnopnum og skilyrðislausum söluheimildum í fjárlögum og fyrri einkavæðing Búnaðarbankans og Landsbankans. Raunar þannig að enn er ekki vitað hverjir verða endanlegir eigendur sumra þessara fyrirtækja.

Í Fréttablaðinu kom nýlega fram að stefnt væri að svokallaðri stærstu einkavæðingu ríkisins þar sem Horn fjárfestingarfélag hf. yrði skráð á hlutabréfamarkað í lok mars eða byrjun apríl næstkomandi. Auk þess yrðu um sex önnur félög skráð á markað síðari hluta þessa árs eða fyrri hluta þess næsta. Öll þessi félög eru að hluta til eða öllu leyti í eigu Landsbankans sem er í 81% eigu ríkisins sem hæstv. fjármálaráðherra fer með. Auk þess hefur verið nokkur umræða um einkavæðingu Landsvirkjunar.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var lagt til, í ljósi þeirra mistaka sem gerð voru við fyrri einkavæðingu ríkisbankanna, að ríkisstjórn hvers tíma marki sér opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti standa eigi að sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Þingmannanefndin lagði einnig til að Alþingi lögfesti rammalöggjöf um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja og eftirlitshlutverk Alþingis væri þar tryggt sem og að löggjöf um opinber hlutafélög og önnur félagaform yrðu endurskoðuð, m.a. í samræmi við athugasemdir eftirlitsstofnana Alþingis.

Þingmannanefndin, sem bæði ég og hæstv. ráðherra áttum sæti í, taldi sérstaklega mikilvægt að þetta yrði gert í ljósi þess að á næstu árum og áratugum er stefnt að því að selja og/eða einkavæða fyrirtæki sem hafnað hafa í eigu ríkiseigu vegna bankahrunsins. Nú tæpum tveimur árum frá því að þessi ályktun var samþykkt á Alþingi liggur engin almenn eigendastefna fyrir hjá stjórnvöldum um eignarhald eða einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Engin rammalöggjöf hefur verið lögfest um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja og eftirlitshlutverk Alþingis hefur ekki verið tryggt og mjög gjarnan virðist sem við þingmenn fréttum fyrst af fyrirhuguðum einkavæðingum ríkisfyrirtækja í fjölmiðlum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hyggst ráðherra marka almenna eigendastefnu um eignarhald ríkisins á ýmsum fyrirtækjum? Hvaða fyrirtæki telur ráðherra rétt að einkavæða og hvaða fyrirtæki telur ráðherra rétt að séu í ríkiseigu? (Forseti hringir.) Á ríkið að vera skammtíma- eða langtímafjárfestir í fyrirtækjum? Og að lokum: Hvað skyldi vera að frétta af rammalöggjöfinni sem við vorum svo sammála um?