Eignarhald ríkisins á fyrirtækjum

Mánudaginn 27. febrúar 2012, kl. 16:01:17 (5782)


140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

eignarhald ríkisins á fyrirtækjum.

427. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svör hennar og hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir innlegg hans og tek undir þá spurningu sem þar kom fram því við í Framsóknarflokknum höfum einmitt haft miklar áhyggjur af þeirri þróun sem hefur verið hvað varðar sparisjóðakerfið.

Þrátt fyrir að svörin hafi að mörgu leyti verið ágæt við spurningunum verð ég að segja að mér finnst allt þetta ferli hafa dregist mjög. Eins og ég benti á eru komin núna tæp tvö ár frá því Alþingi ályktaði um að setja ætti löggjöf, rammalöggjöf, um ekki bara söluna eða einkavæðinguna og hvernig skal standa að sölu ríkisfyrirtækja, heldur hvernig eignarhaldinu skal vera háttað og hvernig við höldum utan um það.

OECD, sem við erum aðilar að, hefur gefið út mjög nákvæmar leiðbeiningar um þetta sem mörg aðildarríki hafa nýtt sér við að móta sína eigendastefnu, m.a. Noregur. Norska ríkið er mjög stór eigandi að fyrirtækjum innan lands og síðan náttúrlega í gegnum norska olíusjóðinn er hann mjög stór fjárfestir á heimsvísu.

Það er mjög mikilvægt, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að þó ætlunin sé að selja fyrirtæki á meðan þau eru í eigu ríkisins þarf að gæta að því að þau séu þá ekki að njóta þess umfram þau fyrirtæki sem ekki eru í eigu ríkisins.

Ég verð líka að segja að mér finnst það algjörlega óásættanlegt, eins og hefur komið ítrekað upp eftir hrun, að þingmenn eru fyrst að frétta af uppgjörssamningum við kröfuhafa í fjölmiðlum, þ.e. um svokölluð skil eða einkavæðingu á bönkum, sölu á sparisjóðum, sölu eins og hjá (Forseti hringir.) Landsbankanum inn í Framtakssjóðinn á mjög stórum fyrirtækjum, í staðinn fyrir að umræða sé tekin málefnalega og faglega á Alþingi.