Virðisaukaskattur á barnaföt

Mánudaginn 27. febrúar 2012, kl. 17:26:39 (5818)


140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

virðisaukaskattur á barnaföt.

499. mál
[17:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Enn er hv. þingmaður á því að ríkissjóður þoli útgjöld. (Gripið fram í.) Á Íslandi er það þannig að 25,5% virðisaukaskattur er á barnafötum og öðrum vörum tengdum börnum nema af matvöru. Ef lækka ætti skattinn til að mynda í 7% yrðu bein og tafarlaus áhrif þess þau að útgjöld barnafjölskyldu minnkuðu og tekjur ríkisins drægjust saman. Einhver hluti þess kæmi þó í einhverju formi til baka í hlut ríkisins, annars vegar strax í upphafi og hins vegar til lengri tíma litið.

Til að áætla hversu háa fjárhæð væri um að ræða þarf að skoða hve miklu meðalfjölskylda eyðir í barnaföt. Til að geta reiknað dæmið þarf að gefa sér ýmsar forsendur. Það er til dæmis hægt að miða við neysluviðmið frá umboðsmanni skuldara þar sem miðað er við að hjón og sambúðarfólk eyði um 4.400 kr. á mánuði í fatnað með hverju barni eða rúmum 50 þús. kr. á ári. Ef við miðum við að barn sé 16 ára og yngra, sem mundi þá kaupa barnaföt, yrðu tekjur ríkissjóðs miðað við 25,5% virðisaukaskatt rúmar 800 millj. kr. sem er, ef við miðum aftur við framhaldsskóla, svona góður meðalstór framhaldsskóli. En ef við förum niður í 7% þá yrðu það um 260 millj. kr.

Hægt er að nálgast þau viðmið með þessum hætti en önnur leið er að nota niðurstöður rannsókna á útgjöldum heimilanna sem Hagstofan gefur út og þá þarf að taka mismuninn á útgjöldum til fatnaðar eftir því hvort um er að ræða barnafjölskyldu eða fjölskyldu án barna. Þá er einnig mögulegt að nota reiknivél fyrir neysluviðmið sem birt er á vef velferðarráðuneytisins. Sú reiknivél gefur svipaðar niðurstöður og reiknivélin sem er á vef umboðsmanns skuldara.

Í innflutningstölum frá Hagstofunni er erfitt að aðgreina barnaföt sérstaklega vegna þess að flokkunin er sú sama og í tollskránni þar sem barnaföt eru aðeins að litlu leyti í hreinum flokkum ef svo má segja. Eitt af því sem taka þarf tillit til í þessum útreikningum er, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, að barnafataverslun fer fram að einhverjum hluta erlendis og erfitt er að ákveða hversu mikið það er og þær tölur koma ekki fram í neyslukönnun Hagstofunnar.

Þeir sem hafa hærri tekjur eyða hlutfallslega mun meira í föt en þeir tekjulægstu og því má gera ráð fyrir að þessi breyting mundi spara þeim tekjuhærri hærri fjárhæðir en þeim tekjulægri.

Ef af þessari framkvæmd yrði þyrfti að hafa í huga hvernig verðið þróast, hvort líklegt væri að verð á barnafatnaði mundi lækka í samræmi við þá lækkun sem yrði gerð á virðisaukaskattinum, hvort og þá hversu mikið verslunin mundi taka þá lækkun til sín og það fer eftir svokallaðri verðteygni.

Í Bretlandi eru barnaföt undanskilin virðisaukaskatti. Barnafatnaður sem ber engan virðisaukaskatt þarf að uppfylla ákveðnar kröfur. Til að mynda þarf að vera á hreinu að hann sé einungis fyrir börn, sé hannaður fyrir börn og sé ekki gerður úr loðfeldi.

Ef virðisaukaskattur yrði lækkaður á barnafatnað má líta á það sem sérstakan ríkisstyrk til allra þeirra sem kaupa barnaföt, ef við gerðum ráð fyrir því að allir borgi virðisaukaskatt. Þeir sem hafa meira á milli handanna kaupa meira af barnafötum en hinir og ríkisstyrkurinn yrði því hærri til þeirra tekjuhærri. (Gripið fram í: Jahá.)

Ég vil því spyrja hv. þingmann (BJJ: Nei, ég er að spyrja þig.) hvort hann sé ekki sammála mér í því að til að koma sérstaklega á móts við barnafjölskyldur væri skynsamlegra að hækka barnabætur þegar ríkissjóður verður til þess aflögufær. Þær gætu annaðhvort verið tekjutengdar eða þá að ákveðin upphæð fylgdi hverju barni. Þarna værum við sannarlega að koma til móts við barnafjölskyldur í landinu. Þeim ríkisstyrk getum við stýrt annaðhvort með því að fara eftir tekjum foreldranna eða þá að allir fái jafnar bætur, þ.e. ákveðin upphæð fylgdi hverju barni. Ég er þeirrar skoðunar að það væri betri leið til að koma til móts við barnafjölskyldur í landinu en að taka virðisaukaskatt af barnafatnaði.