Virðisaukaskattur á barnaföt

Mánudaginn 27. febrúar 2012, kl. 17:32:47 (5820)


140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

virðisaukaskattur á barnaföt.

499. mál
[17:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn höfum einmitt lagt fram tillögur í þeim efnum. Við teljum einfaldlega best að hafa skattprósentuna lága. Það er einfaldast og það er skilvirkast og skilar fleiri störfum og meiri fjárfestingu þannig að samfélagið allt verður betur sett, ríkir sem fátækir. Sérstaklega mundi það hjálpa barnmörgum fjölskyldum og stórum heimilum.

Við búum við skattpíningarumhverfi og sjáum skattana hækka og hækka á öllum sviðum. Við sjálfstæðismenn höfum því lagt fram frumvarp eða tillögur samhljóða fyrirspurn hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um að lækka virðisaukaskatt á barnafatnaði, ekki síst í ljósi þess að margsinnis hefur verið sýnt fram á að störf eru að flytjast úr landi. Við þurfum að halda störfum hér á landi. Þessi mikla skattstefna er afleiðing þess að við erum að missa störfin úr landi, þau eru að fara frá okkur.

Ég verð hins vegar að segja, frú forseti, að (Forseti hringir.) ég er orðin pínulítið leið eftir svörin frá hæstv. ráðherra í dag. Mér finnst þau öll á þá lund (Forseti hringir.) að engu megi breyta í kerfinu og (Forseti hringir.) frekar eigi að standa vörð um það svakalega skattpíningarkerfi sem komið hefur verið upp á dögum vinstri stjórnarinnar.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma. Hann er stuttur, ein mínúta, og erfitt að standa á bjöllunni og fá menn úr ræðustól.)