Þróun raforkuverðs

Mánudaginn 27. febrúar 2012, kl. 18:09:28 (5838)


140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun raforkuverðs.

337. mál
[18:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. fyrirspyrjanda verði ekki að ósk sinni, það var kannski ekki ósk hans, að hin ágæta svokallaða norræna velferðarstjórn ætli sér að taka hér upp norskt raforkuverð og hækka orkuverð innanlands fjórfalt. Einn af kostum þess að búa á Íslandi er að við eigum gnægð af auðlindum sem við getum nýtt til orkuframleiðslu og lágs orkuverðs.

Það er hins vegar rétt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að þá skiptir það miklu máli hver eigendastefna þessara fyrirtækja er og hverjir halda þar á spöðunum í stjórnum fyrirtækjanna. Því vil ég hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að hjálpa okkur framsóknarmönnum, sem höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að fjalla einmitt um það hvernig við stöndum að eigendahópi Landsvirkjunar og útgáfu á virkjanaleyfum (Forseti hringir.) til orkufyrirtækja, til að tryggja að hér verði um langt árabil áfram lágt orkuverð.