Rannsókn á einkavæðingu banka

Þriðjudaginn 28. febrúar 2012, kl. 15:45:14 (5912)


140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég hef áður lýst því yfir úr þessum ræðustól að ég tel mjög mikilvægt að við fáum allt upp á borðið sem gert hefur verið hér og tengist afdrifaríkum ákvörðunum fyrir hrun, við höfum það vel reifað að hluta til í rannsóknarskýrslunni, og að sjálfsögðu eftir hrun líka.

Ég rifja það upp fyrir hv. þingmanni að ég var mjög gagnrýninn á söluna á Vestiu og kom upp í þennan ræðustól til að vekja athygli á sjónarmiðum mínum í því efni þannig að það er ekki alveg rétt að ég hafi ekki lyft litla fingri til að vekja athygli á því að það þyrfti að velta við steinum í þeim efnum. Ég hef ekki breytt um skoðun í því efni, mun áfram tala fyrir því að hér sé fullt gegnsæi í þessum mikilvægu málum og að menn fái upplýsingar og geti áttað sig betur á því hvaða sjónarmið hafa ráðið ferðinni í þessum efnum.