Rannsókn á einkavæðingu banka

Þriðjudaginn 28. febrúar 2012, kl. 15:46:30 (5913)


140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[15:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum ekki söluverðið á einstökum fyrirtækjum í Vestiu, við fáum ekki að vita það. Við fáum ekki að vita um samningana milli gömlu og nýju bankanna. Bara framlögin til Sögu og VBS voru 41 milljarður, virðulegi forseti, það er hærra en söluverðið á einkavæðingunni 2002 ef við framreiknum það. Við vitum ekkert um þetta mál.

Það eru ítarleg og greinargóð erindi hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hv. þingmenn meiri hlutans sitja á og eru ekki búnir að hreyfa við. Þau komu fram í fyrrahaust. Ætla menn að bíða í áratug og fara svo að skoða þau? Til hvers var verið að setja stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem menn tala hér fjálglega um að hafi verið alveg stórkostlegt að gera? Ég mun fara nákvæmlega yfir það í ræðu minni hvað þar var á ferðinni og hvaða lög voru brotin. Enginn hefur mótmælt því. Af hverju sitja hv. stjórnarþingmenn á þessum upplýsingum? Af hverju beita hv. stjórnarþingmenn sér ekki fyrir því að þetta verði upplýst? Ætla menn að bíða í áratug? Við skulum skoða þessa einkavæðingu og það í fortíðinni sem við viljum skoða, sjálfsagt mál, en af hverju í ósköpunum er enginn áhugi hjá hv. stjórnarþingmönnum á að upplýsa um þau mál sem núna eru í gangi? Þar er um miklu hærri fjárhæðir að ræða en nokkurn tímann áður og í rauninni miklu afdrifaríkari ákvarðanir en um var að ræða á þessum tíma, 2002.