Rannsókn á einkavæðingu banka

Þriðjudaginn 28. febrúar 2012, kl. 15:48:39 (5914)


140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[15:48]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við hv. þingmann um það þingmál sem við erum að ræða. Hann notar allan sinn tíma í andsvörum til að tala um allt önnur mál, mál sem hafa gerst eftir hrun, en þetta mál fjallar um einkavæðingu bankanna og þá atburðarás sem leiddi til þess að þeir voru seldir án þess að nokkur leiðsögn kæmi frá þessari stofnun, Alþingi, gagnvart þeirri stóru spurningu hvernig ætti að standa að einkavæðingu fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins þannig að menn kæmust bærilega hnarreistir frá því verki. Það er dæmi um þá niðurlægingu sem menn stóðu fyrir gagnvart löggjafarsamkundunni í þeim ríkisstjórnarflokkum sem þá réðu ríkjum í landinu, þar á meðal flokki hv. þingmanns. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við drögum fram hvernig stóð á því að þessi mál þróuðust með þeim hætti að vikið var til hliðar jafnvel þeim fátæklegu sjónarmiðum sem komu þó sérstaklega fram í framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Önnur sjónarmið sem rannsóknarnefnd Alþingis vill meina að hafi fyrst og fremst verið pólitísk réðu því hvernig málum var á endanum skipað og hvaða aðilar fengu bankana í sínar hendur. Það skiptir öllu máli fyrir okkur núna því að við horfum fram á það að innan hugsanlega skamms tíma þurfum við að fara í sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og afar mikilvægt að menn geri ekki aftur þau sömu mistök að senda opinn tékka inn í framkvæmdarvaldið um atburðarás og vinnubrögð í þessum efnum.