Rannsókn á einkavæðingu banka

Þriðjudaginn 28. febrúar 2012, kl. 16:03:13 (5918)


140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fullyrða um hversu gott verð fékkst fyrir bankana á sínum tíma en ef ég man rétt var ekki mikið um tilboð. Menn höfðu áhuga á því að fá erlenda aðila til að kaupa bankana en því miður gekk það ekki eftir. Ég held annars að það hefði verið heillaspor. Þó að það skýri ekki alla hluti var svo sannarlega um annars konar einkavæðingu að ræða sem minna hefur verið í umræðunni, þ.e. einkavæðingu á þeim bönkum sem runnu síðan inn í Íslandsbanka, með dreifðra eignaraðild. (Gripið fram í.) Ég tel að það hefði verið betra að fara þá leið en kjölfestuleiðina sem síðan var farin. En það er sjálfsagt að fara yfir það allt saman og mikilvægt að skoða það.

Ef vandinn er sá, virðulegi forseti, að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ráða því hvort Byrs- og SpKef-málið nær fram að ganga skal ég ganga í það mál og lofa hv. þingmanni að þá rennur það ljúft í gegn. Ef það er svo að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa málið í hendi sér er þetta lítið vandamál og því verður kippt í liðinn hið snarasta.