Rannsókn á einkavæðingu banka

Þriðjudaginn 28. febrúar 2012, kl. 16:29:23 (5928)


140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Að hætti hv. þingmanns þakka ég fyrir ekki-svarið. Mér þykir sem við þurfum ekki að ræða þetta með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Ég bendi hv. þingmann á að þrátt fyrir hans sýn til hluta þá minnist ég þess ekki að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nokkurn tíma verið með hreinan meiri hluta á Alþingi eða í ríkisstjórn og væri ágætt fyrir hv. þingmann að rifja söguna aðeins betur upp í því.

Ég lýsi því yfir að það er algerlega röng nálgun hjá hv. þingmanni að gefa það til kynna að þeir tveir stjórnarandstæðingar sem hér hafa talað, sá sem hér stendur og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, skilyrði stuðning sinn við þá tillögu sem hér liggur fyrir með einhverjum hætti. Það er ekkert slíkt á ferðinni, ekki neitt. Það er rangt að gefa slíkt til kynna. Þetta var einföld spurning í ljósi einbeitts vilja hv. þingmanns að grafa í fortíðinni og skoða þá hluti og draga lærdóm af þeim mistökum sem þar hafa verið gerð. Það er óumdeilt að það voru líka gerð mistök í því sem á eftir kom. Af hverju skyldi hv. þingmaður ekki getað svarað þeirri spurningu sem til hans er beint með afdráttarlausari hætti en þeim að fara í eitthvert skæklatog og gera mönnum upp skoðanir. Ég vil bara undirstrika að það eru engin skilyrðing fólgin í þessu, þetta er einföld spurning. Er ekki eðlilegt að draga einhvern lærdóm af því til dæmis hvernig stóð á því að ekki var fylgt lögum varðandi málefni Byrs? Getum við ekki dregið lærdóm af því? Stendur ekki vilji manna til þess?

Ég beini þeim orðum til hv. þingmanns að taka þessu ekki svo að það sé einhver skilyrðing fyrir stuðningi við þetta mál þótt kallað sé eftir vilja til að draga lærdóm af fleiru sem gerst hefur í íslensku fjármálalífi undir forustu íslenskra stjórnvalda.