Netfærsla af nefndarfundi

Miðvikudaginn 14. mars 2012, kl. 15:43:14 (6445)


140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

netfærsla af nefndarfundi.

[15:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil bara gera athugasemd aftur við þessa tortryggni hæstv. forseta. Í fyrsta lagi að gera manni það upp þegar maður biður um orðið undir liðnum um fundarstjórn forseta að ætla að ræða eitthvað annað en fundarstjórn forseta. Í öðru lagi að þegar maður gerir athugasemdir við vinnubrögð af hálfu forseta, sem eru mjög ámælisverð að mínu mati, lýsi hæstv. forseti því yfir að hæstv. forseti eigi ekki að þurfa að þola neina gagnrýni fyrir störf sín, að það megi ekki einu sinni benda á það sem forseti gerir og hlýtur að teljast ámælisvert, að gefa þingmanni ekki einu sinni tækifæri til að svara fyrir sig áður en forseti dæmir í máli hans.

Hvað varðar Samfylkinguna átti ég ekki von á því að þetta væri svona viðkvæmt mál. Ég hélt að Samfylkingin sjálf skilgreindi sig á þennan hátt og þetta væri ekkert sem ég væri að finna upp á. Ég vissi reyndar ekki að sértrúarsöfnuður væri svo sérstaklega neikvætt orð. En þessi flokkur, við skulum bara kalla hann flokk, hefur óbilandi trú á ákveðið fyrirbæri og sama hvað kemur í ljós (Forseti hringir.) varðandi þetta fyrirbæri hvikar hann ekkert frá þeirri trú, þannig að söfnuður alla vega held ég að sé viðeigandi.